Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bjarni Jónsson

Úr Wikiheimild

Bjarni er maður nefndur, kallaður Jónsson Dans hins yngra. Hann bjó „undir Hesti“ eða Hafurshesti í Önundarfirði í Ísafjarðarsýslu. Bjarni var latínulærður og hafði siglt suður í lönd og komið í níu kóngaríki; kunni hann tungur þeirra allra og var margfróður maður. Þegar hann var í Kaupmannahöfn vakti hann upp með öðrum stúdentum Elínu stjörnu á Grikklandi; ekki fannst þeim mikið um fríðleik hennar; þeim sýndist hún kringluleit og samlit í andliti með rauðan blett í enninu. Litla stund hafði hún hjá þeim verið; en þegar hún gekk í burtu lagði af henni ódaun megnan og slæman sem olli því að þeir sem við voru staddir fundu enga lykt þaðan í frá. Eftir að Bjarni kom út hingað aftur þykir líklegast að hann hafi setzt að á Hafurshesti sem fyrr segir þó foreldrar hans byggi á Eyri við Seyðisfjörð vestra. Sagnir eru um það að Bjarni hafi verið óskilgetinn, en aðeins eignaður Jóni Dan; því einu sinni hafi karl nokkur komið til Bjarna og beðið hann ölmusu, en Bjarni látið lítið af hendi rakna við hann; er þá sagt að karlinn hafi sagt: „Þetta eru lítil sonarútlát.“