Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bjarni frá Ási og barnið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Bjarni frá Ási og barnið

Bjarni Guðmundsson frá Ási í Vatnsdal andaðist í Bessastaðaskóla á jólaföstu.[1] Var lík hans lagt á stóra rúmfatabyrðu er stóð við þvert þil fyrir framan svefnloftin. Um nóttina dreymdi pilt einn er svaf í stærra svefnloftinu að hann þykist standa í loftsdyrunum og sjá fram á byrðuna þar sem líkið lá. Þykir honum ljósbirta í loftinu og sér hann að Bjarni liggur þar eins og hann var lagður, en sýnist hann glaðvakandi og sem einhver ánægjusöm rósemdarþögn hvíldi yfir honum. Við fætur hans sýndist honum ungbarn liggja vakandi og með glöðu yfirbragði. Liðu nú nokkrir dagar þar til Bjarni var jarðaður; var þá komið með ungbarnslík og það lagt í gröf með honum, en ekki hafði lát barnsins frétzt að Bessastöðum fyrr en nokkrum dögum eftir drauminn.

  1. 13. des. 1828, 19 ára.