Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Brikta saga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Brikta saga

Um þær mundir sem saga þessi gjörðist var Grímsey fjölbyggð; vóru þá á henni tuttugu bæir, en nú eru þeir ekki nema tíu. Þá bjó gamall maður sem Brikti hét í koti litlu niður við sjóinn á Miðgörðum, og er þar nú kölluð Briktatóft. Brikti þessi var haldinn fjölkunnugur, og leituðu eyjarmenn oft til hans í vandræðum sínum. Það var einn góðan veðurdag að eybyggjar allir réru út fyrir ey. Lá þá engelskt skip á legunni vestur af Sandvíkurhrauni. Hálfhræddir vóru eyjarmenn um að þessir engelsku kynnu einhvörjar óspektir að gjöra, en vildu þó ekki sleppa sjóveðrinu. Höfðu þeir með sér vopn og verjur og lögðu svo undir að ef engelskir kæmu í land skyldi kvenmaður frá Básum hlaupa upp á Stórabratta og flagga þar til eyjarmanna. Stóribratti er hæsti bjarghóll á eyjunni.

Nú róa eyjarmenn og í hvarf út fyrir eyjuna. Þegar þeir engelsku sjá það fara þeir í land og lenda í gjögri einum, láta einn gæta báts, en hinir fóru til bæja, rændu og nauðguðu kvenfólki.[1] Undireins og til þeirra sást að fara í land hljóp kvenmaður frá Básum upp á Stórabratta og gaf eyjarmönnum það umtalaða merki. Brugðu þeir þá skjótt við, lentu í Köldugjá norðaustan á eynni; þar er góð uppganga. Gengu þeir sem hraðast upp og heim ey. Þegar þeir koma utan á Sandvíkurholt lenda þeir í flasinu á Englendingum; slær þar í bardaga og fella eyjarmenn þá alla. Sjást þar enn dys þeirra og eru kölluð Engelsku dys. Sá sem báts gætti hafði gætur á hvað leið, og þegar hann sá hvörsu fór réri hann sem hraðast fram í skip, hjó á atkerisstrenginn og sigldi burt.

Árið eftir sendu engelskir Grímseyingum bláröndótta skyrtu með þeim umyrðum að láta konur fara í hana þegar þær ættu að fæða, mundi þá fæðingin ganga létt.[2] Næst þegar kona lagðist á gólf var hún látin fara í bláröndóttu skyrtuna og dó sú kona strax með miklum harmkvælum. Nú er leitað ráða til Brikta kalls, og segir hann þeir skuli fara með skyrtuna yzt út á Eyjarfót og brenna hana þar í sunnanveðri svo reykinn legði til hafs út. Var svo gjört og hefur síðan ekki vaxið eitt stingandi strá á blettinum þar sem skyrtan var brennd yzt á Eyjarfætinum. Bletturinn er hér um fjögra faðma breiður, en nokkru lengri, kolsvart melflag. En allur er Eyjarfóturinn að öðru leyti grasi vaxinn.

Nokkru eftir þetta komu þrjú engelsk skip að eyjunni og lögðust skammt vestur af henni. Þóktust eyjarmenn nú vissir um að þessir mundu ætla grátt að gjalda og hefna landsmanna sinna og urðu því mjög skelkaðir. Leita þeir nú enn til Brikta kalls. Hann var þá orðinn hrumur og blindur og segist nú lítið gefa, en illt þyki sér að gera þeim ekki neina úrlausn. Lætur hann þá leiða sig að sjópolli einum litlum sem er á klöpp skammt fyrir utan Briktatóft. Lætur hann á pollinn þrjár krákuskeljar og fer að blása á pollinn. Kemur þá strax vestanbára í sjóinn og gengur upp geysilegt vestanveður. Undireins og þessa varð vart hjuggu þeir engelsku á einu skipinu á atkersstrenginn og náðu slag suður fyrir eyjuna. En tvö skipin sleit upp og braut í spón við eyjuna. Komst þar ekkert mannsbarn af, enda vóru nú sokknar tvær skeljarnar hjá Brikta, en sú þriðja sökk aldrei.

Brikti var nú orðinn gamall mjög og kviðu eyjarmenn mikið illvirkjum og ránum engelskra eftir fráfall hans. Mælti þá Brikti svo um að eyjan skyldi aldrei framar rænd verða meðan kvöldsöngvar væru haldnir, meðan Briktatóft sæist og meðan jaxl hans væri ófúinn. Kvöldsöngvar viðhéldust að minnsta kosti annað slagið allt til 1849, enda var eyjan aldrei rænd í frá Brikta dögum þangað til. En litlu eftir það kvöldsöngvarnir aflögðust komu úr Grímsey kvartanir um spillvirki engelskra. Briktatóft sést enn, en hvað jaxlinum líður vita menn ógjörla. En það vita menn að Brikti liggur eftir sjálfs síns fyrirmælum grafinn í bæjartóft sinni.

  1. Máske þetta sé sama ránið og Espólín getur um við árið 1423. [J. N.]
  2. Til samanburðar við frásögnina um skyrtuna get ég þess að í fornöld var það venja í Skotlandi, og það víst hjá sumum allt til skamms ef ekki enn, að láta barnssængurkonur taka á sig töfraðan lukkusmokk eða belti til þess hagur þeirra greiddist fljótar og betur (sjá Poems of Ossian, Leipzig 1847, bls. 300). Það er nú sjálfsagt að skyrtan Grímseyinga var töfruð í gagnstæða átt. En hér urðu líka manna dæmi, því það er alkunnugt hvörnig forðum daga fór um skyrtuna hans Herkúlesar heitins. – Íslenzka frásögn hefi ég öngva heyrt dæmislíka skyrtusögunni. [J. N.]