Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Dísa vekur upp tvíbura

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Dísa vekur upp tvíbura

Maður er nefndur Snorri; hann bjó á Stóru-Háeyri og fór einu sinni ferð austur í Parta. Segir ekki af ferðum hans fyrri en hann var kominn aftur út á móts við Stokkseyri. Það var um miðja nótt í tunglsljósi. Þá sér hann þar í kirkjugarðinum einn mann eða jafnvel tvo. Hann skiptir sér ekki af þessu, en gengur niður að sjó og svo út með ströndinni. Og þegar hann er kominn góðan spöl út fyrir Stokkseyri, nærri út að Hraunsá, snýr hann aftur frá sjónum upp á flatirnar. Þá sér hann tvo eldhnetti veltast með miklum hraða út eftir bökkunum þar til hann missti sjónar af þeim. En skömmu eftir þetta barst sú saga að Stokkseyrar-Dísa hefði vakið upp tvíbura[1] og sent þá vestur á Vestfirði.

  1. Sumir segja að það hafi verið börn hennar tvö er hún hafi drepið úr hor.