Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Dísu veitt ráðning

Úr Wikiheimild

Ferðamaður nokkur kom einu sinni að Stokkseyri og bað Dísu að gefa sér að drekka. Hún gjörði það og spurði hann um leið hvort hann vildi ekki selja sér hestinn sem hann reið. „Það gjöri ég ekki,“ mælti hann, „því að þetta er minn bezti hestur; honum farga ég ekki.“ „Hvar ætlarðu að á í nótt?“ mælti hún. „Hjá Baugsstöðum,“ svaraði hann. Síðan kvaddi hann hana, hélt leiðar sinnar og tjaldaði hjá Baugsstöðum. En hann þorði ekki að sofa um nóttina, heldur horfði út um tjaldið út eftir bökkunum. Þegar góður tími er liðinn sér hann að Dísa kemur utan bakkana og gengur beinlínis að hesti hans. Hann hleypur strax niður að sjó og út með honum til að vera í vegi fyrir henni. Bráðum sér hann hvar kerling kemur ríðandi og stefnir á hann. En hann ræðst þegar að henni og setur hana af baki; glíma þau svo um stund, en svo lauk að Dísa hafði miður. Þá leysir hann skóna af henni, gefur henni ráðningu með þeim. Þá mælti Dísa: „Þetta var mannlega gjört; kom þú til mín hvenær sem þú ert á ferð; þú munt varla hafa verra af því.“