Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Dauði Hálfdanar prests

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Dauði Hálfdanar prests

Svo er sagt að þegar á leið ævi Hálfdáns prests hafi hann gjörzt mjög hugsjúkur um hina eilífu velferð sína og vandað til um framferði sitt sem mest. En er leið að dauða hans er hann vissi fyrirfram hvenær að mundi bera sagði hann svo fyrir að hann vildi láta búa sæng sína í húsi því er hann hafði daglega búið í. Lét hann byrgja það sem bezt svo hvergi var smuga á nema skráargatið.

Hálfdán prestur átti eina fósturdóttur er hann hafði alið upp af fátæki og unni hann henni mest allra manna. Sagði hann svo fyrir að enginn skyldi vera hjá sér þegar hann létist nema fóstra sín og skyldi hún nákvæmlega taka eftir því sem fyrir hana bæri. Einn hrút mórauðan lét hann vera undir sæng sinni og þrjú ljós standa á borði til höfðalags við sængina; sagði hann það til marks um velferð sína að ef ljósin slokknuðu í því bili hann létist og hrúturinn væri kyrr undir sænginni þá færi hann illa; en lifðu ljósin öll eður eitthvert þeirra, er hrúturinn hvyrfi, þá færi hann vel.

Og er leið að þeirri nótt er prestur vænti dauða síns var búið um stúlkuna fósturdóttir hans til fóta við rúm hans, en hrútinn undir rúminu og ljósin á borðinu; og er sú stund kom að öndin leið upp af Hálfdáni presti sér stúlkan að tvö ljósin slokknuðu, en eitt lifði, en hrúturinn skríður fram undan rúminu og hverfur út úr húsinu í gegnum skráargatið, og hefur hans aldrei orðið vart síðan. Hefur enginn síðan leitt í efa að Hálfdán prestur hafi fengið góðan samastað eftir dauðann.