Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumar og dreymendur
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Draumar og dreymendur
Draumar og dreymendur
Áður en skilið er með öllu við fyrirburði eða drauma verður að geta þess að eins og allir eru ekki jafnmiklir draumamenn eins eru ekki allir heldur jafnfærir til að ráða drauma. En það fer oftast saman að þá sem mest dreymir og hafa mesta trú á draumum, þeir eru betri draumþýðendur en hinir sem sjaldan dreymir einmitt af því að þeir leggja engan trúnað á þá. Þó er það sjálfsagt að meðfædd greind ætti að gjöra mikið til. En líklega hafa draumþýðingar aldrei verið taldar spádómsgáfa. Spásagnir hafa þó tíðum komið fyrir á Íslandi bæði að því leyti sem menn hafa séð og sagt fyrir óorðna hluti eða geta séð sjónir eða séð í jörð og á sem kallað er; er það sá hæfilegleiki að sjá ekki síður fjarlæga hluti en nálæga á þeim tíma er þeir verða.