Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumur Einars Helgasonar á Laugabóli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Draumur Einars Helgasonar á Laugabóli

„Þegar ég var sofnaður þótti mér sem ég kominn væri upp í sælustað þeirra útvöldu hvar ég þóttist sjá sjálfan guð og vorn meðalgangara Jesum Kristum í ósegjanlegum ljóma, samt óteljandi fjölda hinna himnesku hersveita sem að stóðu allt í kringum veldisstólinn hvar þeir sungu hönum lof með yndislegum hætti. Ég varð næsta frá mér numinn í huga; mér kom þetta fyrir í svefninum sem stór hvelfing af skærum kristall hvar allt einn ljóma var að sjá. Þá ég hafði með undrun horft á þetta um stund heyrði ég hvella rödd yfir mér svo látandi: „Tími endurlífgunarinnar nálægist.“ Því næst heyrði ég að voldug skipun út gekk frá veldisstólnum til eins engils að hann skyldi framkalla til lífsins þá sem fyrst væru dánir; ég man ekki hvað langt fram eftir öldunum. Hann gjörði svo og blés í básúnu og ég heyrði básúnuhljóminn, og allur fjöldinn kom fram og varð lifandi. Hvur af þeim endurlifnuðu meðtók sína sál og varð að ásýnd líkur þeim sem stóðu kringum veldisstólinn.

Því næst heyrði ég að út gekk voldug rödd til eins annars engils að hann skyldi til lífsins kalla alla þá sem sjór og vötn höfðu að geyma. Hann gjörði svo og allur sá fjöldi kom fram og varð að ásýndum líkur þeim fyrri. Þessi engill hrópaði með hvellri raust: „Þér sjór og vötn, látið fram þá dauðu.“ Þegar ég með undran horfði á það sem nú er sagt heyrði ég að út gekk enn voldug rödd frá veldisstólnum til enn annars engils, það hann fram kalla skyldi til lífsins allan fjölda þeirra andvana fæddu barna og sem dáið hefðu í móðurlífi og enn nú ekki hlotið fullan skapnað; „svo rúmið sé fullt og öngvu verði glatað,“ sagði hann. Ég varð hryggur með sjálfum mér því ég þóttist vita, að dauðinn hefði enn meira vald yfir þessum flokki en þeim fyrri tveimur sem endurlífgaðir voru. Þessi engill blés í básúnu og fjöldi hinna dauðu kom fram og varð lifandi. En mér þóttu nokkrir af þessum flokk sem nefndur engill fékk ekki fram kallað til lífsins þar mér þótti hann þrjóta vald til þess. Ég varð hryggur við þetta þar til ég heyrði frá hásætinu hljómandi raust: „Þú minn elskulegi og útvaldi son, kalla þessa til lífsins.“ Þá sýndist mér vor herra Jesús Kristur sjálfur upp standa frá veldisstólnum og hrópaði með hvellri raust á þá dauðu sem strax urðu lifandi og líkir þeim fyrri, en jafnskjótt sem þetta skeði þótti mér allur sá himneski skari falla flatur fram fyrir hásætinu með stærstu lotningu og sungu síðan með harla yndislegum hætti: „Þér tilheyrir dýrðin og vegsemdin; þú hefur sigrað dauðans vald.“ Að þessu búnu þótti mér hvelfingin umbreytast og sá ég hvar sveimaði um loftið mergð af vondum öndum í eldlegum myndum, og úr þeirra flokki heyrði ég svo látandi raust: „Hvað eigum við að hafa?“ Þá heyrði ég svarað: „Það er stöðugt sem ég hef sagt frá eilífð, þið fáið ekkert.“ Þeir fóru síðan burt. Síðan sá ég hvar stóð ógurlega stór fjöldi fólks líka sem í þríhyrndri fylkingu. Þeir vóru með mjög döpru og þankafullu yfirbragði. Ég spurði engil einn er nær mér stóð hvaða menn þetta væru. Hann svaraði: „Það eru menn af öllum tungum, þeir sem ekki vildu gegna guðs orða áminningum og aðvörunum á jörðunni, en standa nú skömminni íklæddir og bíða allsherjardóms. En hvað við þessa verður gjört er þér ekki leyft að vita því það er innsiglað og leyndardómur.“ „Fæ ég að koma hingað?“ spurði ég. Hann svarar: „Þú ert nú þegar kominn hingað; en það sem þér hefur nú verið um stund leyft að sjá fær þú að opinbera öðrum fyrst. En hafið lampann tendraðan því þið vitið ekki nær eð húsbóndinn kemur.“

Það voru hans síðustu orð og ég vaknaði.“