Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumur Gísla Konráðssonar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Draumur Gísla Konráðssonar

Seinustu nóttina áður en Gísli Konráðsson fór á stað á Vesturland úr skagafirði[1] svaf hann hjá vini sínum og fræðimanni Tómasi gamla Tómassyni fyrr á Hvalsnesi, svo á Nautabúi og nú á Þverá (er sagði mér[2] þessa sögu núna í haust 1862). Dreymir Gísla draum og segir Tómasi hann: „Ég þóttist staddur vestur á Skagaströnd og sá vestur á Húnaflóa og allt vestur á Breiðafjörð og sýndist hilla undir Flatey. Í þessu bili sá ég hvar maður stór vexti kom vestan allan flóa eftir fjörunni,“ – og nemur staðar hjá Gísla. Hann kveðst spyrja hann að nafni, en hann nefndi sig Viðtólf. „Það er fáheyrt nafn,“ kveðst Gísli segja. „Já,“ segir hinn, „ekki er föðurnafnið síður, ég er Vísadómsson.“ Og í þessu hrökk Gísli upp. „Og fyrir hverju heldurðu Tómas minn að þetta verði?“ „Fyrir tólf vikna skorpu,“ segist Tómas segja. „Vera má að svo verði,“ kvað Gísli. Seinast í vor hafði Gísli minnzt á draum þenna í bréfi til Tómasar og vænzt að styttast mundi. Tómas réð drauminn við mig að Gísli mundi lifa tólf ár á Vesturlandi (í Flatey) og rita bókfræði (vísdóm). Nú er á tólfta ári síðan Gísli fór vestur og vonast Tómas að hann heyri lát Gísla þá og þegar.[3] Almenn trú er að Tómas viti frá sér.

Ég sagði við Tómas maður sá er birzt hefði Gísla hefði verið Eggert Ólafsson vísindamaður, og féllst Tómas á það. Bezt er að geyma sögu þessa fyrst um sinn í kyrþey.

  1. Gísli fluttist til Flateyjar árið 1852.
  2. Þ. e. Jóni Borgfirðingi.
  3. Gísli dó þó ekki fyrr en 1877.