Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumur Péturs er sauðféð drap

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Draumur Péturs er sauðféð drap

Pétur hét maður er Friðrik Sigurðsson, sextán ára piltur frá Katadal, drap á Illugastöðum um leið og Natan Ketilsson. Pétur þessi var þar gestkomandi; hafði Vorm á Geitisskarði sent hann eftir meðölum til Natans er fékkst við lækningar. Pétur svaf í rúmi hjá Natan. Hafði hann orðið sekur um sauðadráp upp í Blöndudal og verið dæmdur á Brimarhólm og beið þess að flytjast þangað. Féð hafði hann drepið á þann hátt að reka það út á svell og stinga til dauðs með broddstaf. Nóttina áður en Pétur fór að heiman frá Geitisskarði dreymdi hann að hann þóttist standa á svellinu sama er hann drap féð á, og sá þar féð allt með áverkunum og þótti það mæna aumlegum augum til sín og emja ámátlega. Nokkrir segja að hann dreymdi þar líka forustuá er fénu fylgdi að hún kæmi að sér, stykki upp um sig og blóð úr sárum hennar blæddi á sig. Skelfdist hann í svefninum við þetta allt saman, en sagði drauminn á Geitisskarði um morguninn áður en hann fór af stað, og varð ljós merking hans við dráp sjálfs hans skömmu síðar.