Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumvísa Látra-Bjargar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Draumvísa Látra-Bjargar

Eitt sinn gisti hún nótt hjá bónda sem Stígur hét, í hríð. Hún svaf um kvöldið á vökunni, reis upp og kvað þessa vísu sem hana dreymdi:

Heyrirðu hvellinn, Stígur?
Hlunkar undir í fjörunum;
báturinn bráða-mígur,
brostinn er hann af skörunum.
Heyrast má hryggðarefni,
hálsar frá gengnir stefni.
Brúnku hjá Björg vaknar af svefni.

Þetta sama kvöld fórst bátur með mönnum í sjóinn og héldu menn að þeim hefði borizt á í hríðinni á blindskeri sem Brúnka er kölluð.