Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumvísur Jóns á Brekkukoti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Draumvísur Jóns á Brekkukoti

Draumvísur bóndans Jóns Þorvaldssonar á Brekkukoti í Svarfaðardal, sonur nafnkennds bónda Þorvaldar á Sökku í sömu sveit. Hann var skáldmæltur og dreymdi eina nótt að hann var staddur á Akureyri í kauptíð og verzlaði með vöru sína við kaupmann Hemmert og þótti honum hann hafa af sér í kaupunum, og yrtust í illu þar til að Jóni þótti hann reiðast og kveða í svefninum:

Óska ég búðin héðan há
hverfi nú á samri stund
með bezta skrúð sem bragnar sjá
á bakkann fyrir neðan Grund.[1]
Kannske að þér kaupmaður
kynnuð smeykir verða þá
og kæfðuð niður kappræður
ef kæmist áfram leikur sá.
Ætti ég ei fyri sálu að sjá,
sannarlega ég fæ það rætt,
þetta skyldi framgang fá
so flestum yrði minnisstætt.

Hann þóttist hafa gert fjórar, en mundi ekki þá seinustu þá hann vaknaði. – Þetta var um miðja 18. öld eður litlu síðar.

  1. Bær nærri Brekkukoti. [Hdr.]