Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ebines og Vilborg

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ebines og Vilborg

Fyrir tæpum mannsaldri bjó maður austur í Múlasýslu með konu og börnum; þau áttu fjögur börn. Þau héldu smalastrák sem hét Ebines. Það vildi einu sinni til að það fór hvölpatík upp í rúmið stráksins sem hann átti sjálfur og sóttaði út allt rúmið. Eldri dóttir hjónanna sem Vilborg hét, hún hló svo mikið að þessu að strákur reiddist við hana og hézt við hana og sagði að það væri illt að geta ekki borgað henni þetta áður en margir tímar liðu. Hann var bæði svikull og latur og illur í sér svo hönum var skipað í burtu. En þegar að strákur var kominn í burtu þá var eldri drengurinn látinn passa ærnar, en tvær stúlkur áttu að passa ungan dreng heima, en foreldrar þeirra vóru á engjum.

Einn daginn vóru börnin inn í baðstofu; þá vildi það til að það kom eitthvurt æði á Vilborgu. Hún hélt á barninu; hún grýtti barninu og tók tóbaksjárn og brá því á hálsinn á sér, en hin stúlkan náði því af henni; þá stökk hún ofan og fram í hlöðu sem var í bænum, en stúlkan sem að inni var heyrði einhvur læti frammi svo hún fór fram og leit inn í hlöðuna og sá þá hvar Vilborg var að hendast á millum stoðanna aftur á bak og áfram eins og það væri verið að henda henni, þar til hún rotaðist. En þegar drengur kom heim með ærnar þá fór hann að kalla á Vilborgu systur sína og þá gegndi hin stúlkan og sagði hönum hvar komið var og sýndi hönum hvar hún lá í hlöðunni. Svo komu foreldrar þeirra heim um kvöldið og sáu hvurnin komið var. En tilefnið var um viðburð þennan að það var förukall að flakka um og vissu menn til þess að strákur hafði lagt lag sitt við þennan kall og héldu menn að hann hefði keypt það af kalli þessum, sem menn höfðu meiningu með að væri fjölkunnugur, fyrir skildinga að galdra stúlkuna svona.