Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Einstakir galdramenn (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Einstakir galdramenn

Oft má svo að bera, jafnvel nú á dögum, að menn ætli að einstakir menn sem vel eru viti bornir séu galdramenn þó þeir vilji ekki sjálfir vera kunnir að því; eins má og vel vera að menn noti hyggilega trúna á galdrakunnáttu annara sér til hags þótt þeir sem noti séu sjálfir fjarri því að trúa slíku. Aftur á hinn bóginn lætur sá sem orð hefur á sér fyrir galdra sér það vel líka og leitast, jafnvel af ásettu, við að efla þann orðróm svo þess meir beri á sér.