Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur nemur kunnáttu í skóla

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Eiríkur nemur kunnáttu í skóla

Í Biskupstungum var eitt sinn kotkarl nokkur gamall og forn í skapi; lítt siðblendi hafði hann við alþýðu. Hann átti tvo hluti er honum þóttu beztir af eigum sínum; það var bók er ekki vissu aðrir menn hvurs innihalds var og kvíga er hann kappól. Karl tók sótt mikla og sendi orð Skálholtsbiskupi og bað hann koma á sinn fund. Biskup brá við skjótt og hugði gott til að tala um fyrir karli, fer til fundar við hann. Karl mælti: „Svo er mál með vexti herra að ég mun skjótt deyja og vil ég áður biðja yður lítillar bónar.“ Biskup játti því. Karl mælti: „Bók á ég hér og kvígu er ég ann mjög og vil ég fá hvort tveggja í gröf með mér ella mun verr fara.“ Biskup segir að svo skuli vera því honum þótti ei örvænt að karl gengi aftur að öðrum kosti. Síðan dó karl og lét biskup grafa með honum bókina og kvíguna.

Það var löngu síðar að þrír skólasveinar í Skálholti tóku fyrir að læra fjölkynngi. Hét einn þeirra Bogi, annar Magnús, þriðji hét Eiríkur. Sagt hafði þeim verið af karli og bók hans og vildu þeir gjarna eiga þá bók, fóru því til á einni nóttu að vekja upp karlinn, en enginn kunni að segja hvar gröf hans var. Því tóku þeir það ráð að ganga á röðina og vekja upp hvurn að öðrum; fylla þeir nú kirkjuna af draugum og kom karl ekki. Þeir koma þeim niður aftur og fylla kirkjuna í annað sinn og hið þriðja og voru þá fá leiði eftir og karl ókominn. Þegar þeir höfðu komið öllu fyrir aftur vekja þeir þessa upp, og kom karl þá síðastur og hafði bók sína undir hönd sér og leiddi kvíguna. Þeir ráða allir á karl og vilja ná til bókarinnar; en karl brást við hart og áttu þeir eigi annað að gjöra en verjast; þó náðu þeir af bókinni framanverðri nokkrum hluta, yfirgáfu svo það eftir var og vildu koma fyrir þeim er þá voru á kreiki og tókst þeim það við alla nema karlinn; við hann réðu þeir öngvu og sótti hann eftir parti bókar sinnar. En þeir vörðust og áttu ærið að vinna; gekk svo til dags. En er dagaði hvarf karl í gröf sína, en þeir þuldu yfir henni fræði sín, og hefur karl ekki gert vart við sig síðan. En blöðin færðu þeir félagar sér í nyt og sömdu eftir þeim fjölkynngisbók þá er Gráskinna[1] er nefnd og lengi lá á skólahússborði í Skálholti; vann Bogi þar mest að, því hann lærði miklu mest.

Þeir félagar vígðust síðan til prestskapar og varð Eiríkur prestur á Vogsósum í Selvogi, en ekki eru nefndir staðir hinna. En það er frá þeim sagt að Magnús gekk að eiga heitmey Boga. En er hann spurði það fer hann til fundar við Magnús og vissi Magnús það fyrir og það með að ef Bogi sæi hann fyrri væri það hans bani. Magnús gekk í kirkju og stóð á hurðarbaki og lét segja Boga er hann reið í hlað að hann væri í kór að gjöra bæn sína. Bogi gekk í kirkju og inn á gólf, og sér Magnús hann fyrri og fagnar honum nú vel. Hann tók því glaðlega og er hann reið burt fylgdi Magnús honum á veg. Að skilnaði tekur Bogi upp pela og býður Magnúsi að súpa á. Hann tók við, tók úr tappann og skvettir í andlit Boga, en hann féll dauður niður. Fer Magnús síðan heim og segir hér ekki fleira af honum.

Þegar Eiríkur á Vogsósum frétti þenna atburð brá honum við og mælti: „Já, já, heillin góð“ (það var vanaávarp hans[2]) „allir vórum við þó börn hjá Boga.“

Þó þeir félagar hefði farið dult með fjölkynngislærdóm sinn leið ekki á löngu áður það komst í orð að Eiríkur á Vogsósum væri göldróttur; því boðaði biskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann gjöra grein fyrir hvort hann kynni það á henni væri. Eiríkur fletti upp bókinni og mælti: „Hér þekki ég ekki einn staf á,“ og það sór hann og fór heim síðan. Sagði hann svo síðan kunningja sínum að þar þekkti hann alla stafi á nema einungis einn.

  1. Önnur „Gráskinna“ var til í Hólaskóla, sjá söguna Guðbjartur Flóki og Hólabiskup.
  2. Í sögunum sem komnar eru úr Múlasýslu er sagt að séra Eiríkur hafi haft fyrir ávarpsorð: „barnið mitt“.