Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur og biskupinn

Úr Wikiheimild

Biskupinn í Skálholti heyrði miklar galdrasögur fara af Eiríki presti svo honum þótti nóg um og ætlaði að setja hann frá embættinu. Einn vetur sendi hann átján skólapilta til Eiríks og áttu þeir að færa hann úr hempunni. Þeir fóru einn góðan veðurdag og stóð nú mikið til. Einn morgun er Eiríkur prestur mjög snemma á fótum, en þegar hann kemur inn aftur dæsir hann mæðilega. Hann biður vinnumenn sína að láta enga skepnu út þann dag því [sér] lítist illa á veðrið. Þeir játa því. En skömmu síðar skellur hann á með mesta illviðri og öskubyl svo varla var stætt úti né gengt milli húsa. Eftir miðjan dag var barið að dyrum og kemur þá einn af skólapiltunum. Þeir höfðu villzt hver frá öðrum í kafaldinu og komust þó allir að Vogsósum, en aldrei nema einn og einn í einu, og voru þeir að tínast að bænum allan daginn fram á kvöld. Eiríkur tók vel við þeim og gjörði þeim allt gott sem hann gat. Urðu þeir þá svo elskir að Eiríki að þeir gátu ekki fengið af sér að reka erindi biskups, að færa hann úr hempunni, og fóru svo búnir heim aftur. Þeir sögðu biskupi hvernig farið hafði og undi hann því illa og kvaðst sjálfur skyldi finna Eirík og vita hvort hann færi erindisleysu.

Leið svo veturinn og fram á sumar. Fór þá biskup og hafði með sér marga sveina. Hann kom að Vogsósum og tjaldaði fyrir utan garð. Það var á rúmhelgum degi og ætlaði biskup að bíða sunnudagsins og taka þá hempuna af presti. Hann tók mönnum sínum vara fyrir að þiggja nokkurn hlut af Eiríki. Gekk hann svo heim að bænum og gjörði boð fyrir prest. Eiríkur fagnaði biskupi vel og var hinn kátasti. Biskup bað hann að sýna sér kirkjuna. Eiríkur gjörði það og dáðist biskup að hversu allt var í góðu lagi. En meðan biskup var í kirkjunni kemur einn af sveinum hans til að sækja eld. Hann hittir Eirík. Prestur heilsar honum blíðlega og tekur upp hjá sér vínflösku og biður hann súpa á. Sveinninn vill það ei og segir að biskupinn hafi bannað sér það strengilega. Eiríkur biður hann því betur og segir það sé öldungis óhætt. Lætur þá hinn undan og sýpur á. Þykist sveinninn aldrei hafa smakkað jafngott vín og biður prest gefa sér flöskuna til að hressa biskup á þessu víni. Eiríkur var fús á það. Fer sveinninn til tjaldsins aftur. Um daginn yfir borðum hellir sveinninn á fyrir biskup úr flösku Eiríks án þess að geta um hvaðan vínið væri. Biskup drakk úr staupinu og þótti gott. En undireins á eftir snerist honum hugur við Eirík. Gekk hann eftir máltíðina heim til hans og sat hjá honum heila viku í góðu yfirlæti; fór síðan heim, og varð ekki af að Eiríkur missti hempuna í þeirri ferð.