Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ekki má sköpum renna

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ekki má sköpum renna

Manni nokkrum var því spáð að hann verða ætti sjódauður. Hann var formaður og sótti fast sjóróðra. Til að komast hjá þessu hét hann aldrei síðan á sjó að koma og enti hann það trúlega, en hafði þó skip sitt úti eftir sem áður. Líða nú mörg ár að ekki bar til tíðinda og var nú bóndi gamall orðinn. Einu sinni réru menn hans. Var veður slæmt um daginn og fengu þeir vos mikið, náðu þó heim til húsbónda síns um kveldið, hraktir og alvotir. Stutt var sjóargata á bænum og fóru þeir í bæinn í öllum sjóklæðum sínum og færðu sig úr þeim á baðstofugólfinu og voru þau þar upp fest. Dag þennan allan var bóndi mjög óglaður, gekk hann ýmist út eða inn og sinnti engu, en kvartaði þó um ekkert. Þegar menn vóru afklæddir fóru þeir upp í baðstofuloftið, var bóndi þá einn eftir á gólfinu hvar hann þegjandi gekk um gólf meðan mennirnir afklæddust. Litlu síðar var með ljós farið inn á gólfið, lá þá bóndi þar á grúfu með andlitið niður í polli sem sigið hafði saman af sjóklæðunum í laut er á var gólfinu, og var hann allur.