Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Enn frá Málmey

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Enn frá Málmey

Nokkru seinna[1] var það að bóndi einn bjó tuttugu ár í Málmey og bar ekki á neinum missmíðum með nokkurt slag. Um vorið fer hann einn fagran veðurdag að flytja búslóð sína í land í blæjalogni og sólskini; flytur hann þannig nokkrar ferðir um daginn. Í seinustu ferðinni flytur hann konu sína og heimilisfólk og er hart nær kominn að landi. Þá rís ein bára stök[2] og drekkir honum, konu hans og öllu heimafólki. Síðan hefir enginn bóndi búið lengur í Málmey en nítján ár.

  1. Þ. e. nokkru eftir að Jón missti konu sína til skessnanna í Hvanndalabjargi, sbr. Hálfdanarhurð.
  2. Sumir segja þrír násjóar. — J. N.