Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fúlatjörn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Fúlatjörn

Á Finnsstöðum í Kinn voru bræður tveir með móður sinni; hétu þeir Finnur og Bolli. Þar undan bænum á Finnsstöðum var lítið vatn og mikil silungsveiði. Þegar móðir þeirra bræðra eltist og hætti bústjórn skiptu þeir bræður landi og hlaut Finnur fremri hluta landsins þar sem Finnsstaðir nú eru, sem heita eftir honum. En Bolli byggði bæ á nyrðri jaðrinum þar sem nú er eyðibýlið Bollastaðir. Móðirin fylgdist með Bolla syni sínum. Ekki leið á löngu áður þeir bræður fóru að deila um veiðina í vatninu; vildi Bolli hafa hana hálfa, en Finnur spillti veiðinni fyrir bróður sínum því hann vildi eiga veiðina alla og fór Bolli halloka fyrir ofsa bróður síns. Varð þá móðir þeirra bræðra mjög reið og lagði það á að vatnið skyldi þaðan í frá verða fúlasta leirtjörn sem ekkert kvikindi þrifist í, og svo varð. Nú vex þar lítið stargresi. Af Fúlutjörn er Kaldakinn stundum nefnd Fúlakinn.