Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Feigðarspár

Úr Wikiheimild

Einu sinni var maður austur í Múlasýslum; hann fór hverja nýársdagsnótt út í kirkjugarð og taldi (sá) alla svipi þeirra er dóu í sókninni á því ári. (Það er ein gamla listin).

Skömmu áður en bærinn brann í Múla núna um árið var þar maður að austan nótt. Um morguninn segir hann: „Hér skeður eitthvað bráðum og hér er óhreinn bær því í nótt sá ég dauðsmanns svip standa fyrir framan húsdyr sr. Benidikts.“ Enda brann bærinn skömmu síðar og stúlka ein inni.[1]

Núlifandi kvenmaður var samtíða stúlku á kirkjustað. Um haustið segir stúlkan við kvenmanninn að hún sjái á kveldin stúlku er hún tilnefndi standa við eitt leiðið í kirkjugarðinum. „Lofaðu mér að sjá hana einhvern tíma,“ segir kvenmaðurinn. Þær fara svo eitt kveld út að garði. Stúlkan segir: „Þarna stendur hún.“ „Ég sé ekkert.“ „Það er nú samt svo,“ og hverfa þær í brott svo búnar aftur.

Seinna kveðst stúlkan sjá hana við leiðið. Um veturinn seinna dó stúlka á einum bæ í sókninni, hin sama og henni sýndist við leiðið.

Í Kinn er dáinn fyrir mörgum árum maður sem Jón hét og hafði ófreskjugáfur. Hann sá ævinlega í hverri veizlu hver feigur var, því bak við veggjatjöld sá hann svip þess. En í seinustu veizlunni sá hann svip sem oftar, en gat aldrei þekkt hann enda var hann sjálfur skammlífur.

  1. Þessi bæjarbruni í Múla í Aðaldal varð 16. des. 1854. Sr. Benedikt Kristjánsson (d. 1903) var aðstoðarprestur þar frá 1851-1856, fékk Múla 1860 og hélt til 1889.