Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Feigðarspár af skyggnleika

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Feigðarspár af skyggnleika

Til hafa þeir menn verið víða hér á landi sem hafa getað sagt fyrir frá hvaða bæ í sókninni næst yrði jarðað þegar þeir hafa verið á kirkjustöðum eða í grennd við þá. Er það af því að þeir hafa séð fylgju eða svip hins feiga litlu áður en hann dó eða um það leyti koma frá bænum sem maðurinn átti heima og fara inn í kirkjugarðinn. Hafa þá hinir dauðu í kirkjugarðinum stundum snúizt illa við þessu aðskotadýri (svipnum) og ausið moldu yfir hann þegar hann hefur verið kominn að eða inn í kirkjugarðinn.

Þannig var það trú að gömul kona ein í Flateyjarþingum á Breiðafirði gæti sagt fyrir í hvert sinn frá hverjum bæ í sókninni næst yrði grafið lík.

Kerling var og í Keldnaþingum á Rangárvöllum sem sagði fyrir að maður af ætt bónda nokkurs sem hún til tók mundi þessu næst farast í vatni. Bóndinn komst að þessu og tók orð spákonunnar til sín og varð af því mjög þunglyndur. En spákerlingin hughreysti hann og sagðist alls ekki hafa átt við hann. Skömmu síðar drukknaði frændi bóndans, en er kerlingin var að spurð hvernig hún hefði vitað þetta sagðist hún hafa séð lík mannsins fljóta ofan eftir Þjórsá á vaðinu þar sem maðurinn drukknaði.