Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Finnabrækur

Úr Wikiheimild

Nábuxur eða Finnabrækur eru hafðar til hins sama og þjófarótin og eru þær þannig til búnar og undir komnar: Sá sem vill fá sér Finnabrækur gjörir samning við einhvern mann er hann þekkir, að hann megi nota skinnið af honum þegar hann sé dáinn. Þegar þessi maður er dáinn fer hinn á næturtíma í kirkjugarðinn og grefur hann upp. Síðan flær hann upp að mitti og lætur það vera belg. Síðan fer hann í belg þennan utan yfir bert hörund, en belgurinn verður að vera af karlmanni því að peningarnir safnast í punginn. Til þess að brækurnar verki verður sá sem þær hefur að stela undir þær peningi á einhverri af þremur stórhátíðum ársins á milli pistils og guðspjalls. Draga þær eftir það að sér; aldrei er tómur pungurinn þegar í honum er leitað, en samt má aldrei taka stolna peninginn sem þar var látinn upprunalega. En í því mismuna Finnabrækur frá þjófarót að enginn vandi er að verða af með þjófarótina því að henni má fleygja hvar sem vera skal, en við gjaldbuxurnar, v. [eða] Finnabrækurnar, getur sá sem einu sinni hefur farið í þær ekki losazt nema hann geti fengið einhvern til að fara í þær. Fer hann þá þannig úr þeim að hann fer úr hægri skálminni, en jafnskjótt fer hinn sem við þeim tekur í hana, en þegar hann er kominn í hægri skálmina þá getur hann ekki snúið aftur þótt hann vilji, því þegar hann ætlar að færa sig úr skálminni aftur þá er hann kominn í hina án þess hann viti af, því að þegar hægri skálmin er komin upp á fótinn þá fer hin sjálfkrafa á eftir, og úr því getur hann ekki losazt við þær nema á hinn áðursagða hátt.