Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Finnabuxur, gjaldbuxur, Papeyjarbuxur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Finnabuxur, gjaldbuxur, Papeyjarbuxur

Finnabuxur, gjaldbuxur, Papeyjarbuxur eru allt hið sama. Þær eru þannig til búnar að maður tekur mannslík og flær belg af því upp að mitti eða svo langt sem þurfa þykir, stelur síðan einhverjum peningi, helzt stórum, eins og spesíu. Á það að vera frá ekkju og á helgidag um messu, milli pistils og guðspjalls. Síðan fer maður í buxurnar, gjörir vasa á þær og lætur hinn stolna pening þar í og er ætíð annar peningur hjá honum þegar maður fer ofan í vasann. Buxurnar verða holdgrónar og kemst maður ekki úr þeim nema þeim sé komið á annan. Losnar maður ekki úr seinni skálminni fyrr en maður er kominn úr þeirri fyrri og sá sem við tekur er búinn að fara í hana. En deyi maður í Finnabuxum fer maður illa.

Mensalder í Papey fór í Finnabuxur og rakaði saman ógurlega miklu fé, en ekki kom hann buxunum af sér. Varð hann því að lokunum sturlaður og þungsinna. Er svo mælt að einu sinni þegar verið var að búa um hann hafi hann sagt að senn mundi þetta fara af og annað taka við. Nokkrum dögum seinna var hann í góðu veðri að reika út um eyjuna. Gjörði þá fellibyl mikinn og síðan hefur Mensalder ekki sézt.