Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fjósbás í Gaulverjabæ
Fjósbás í Gaulverjabæ
Í Gaulverjabæ var bás einn í fjósinu sem alltaf átti að standa auður, og varðaði því að væri nokkur skepna á hann látin fannst hún dauð að morgni. Fór svo fram allt til þess að þangað kom séra Jón Teitsson sem seinna varð biskup. Var hann varaður við þessum álögum, en hann kvaðst um engin álög hirða. Skipar hann nú fyrsta kvöldið að binda kálf á básinn. Var svo gjört og var kálfurinn dauður að morgni. Kvöldið eftir skipar prestur að binda naut á básinn og var það dautt að morgni. Þriðja kvöldið er uxi látinn á básinn. Dauður er hann að morgni. Nú fór fólkinu ekki að verða um sel, en prestur kvaðst aldrei skyldi undan láta og skipar nú að láta kú á básinn. Varð svo að vera sem prestur vildi og var kýrin lifandi að morgni. Síðan hefir ekkert á þessum álögum borið.