Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Frá Jóni á Berunesi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Frá Jóni á Berunesi

Eitt sinn var Jón að smala út í Vattarnesskriðum þar sem kallaður er Bauluhamar. Einn maður var með Jóni. Þá kom þar að þeim sjódraugur, en þeir tóku til fóta og flúðu heim að Vattarnesi og var Jón fljótari í bæinn og komst í baðstofu, en hinn maðurinn komst í skála út úr bæjardyrum, en gat ekki komið aftur hurðinni, því drauginn bar að í því og banaði honum þegar. Þá kom Jón að og kvað hann frá sér svo hann gjörði ei meira tjón. Er mælt að Jón hafi sagt síðar að það hafi sér mest til rifja runnið að vita drauginn drepa manninn og geta ekki bjargað honum, því hann var svo móður og utan við sig að ekkert gat að gjört fyrr en hinn var dauður.

Ekki er getið um að Jón hafi gjört illt stórvægilegt með kveðskap sínum eða fjölkynngi, en undarlegur var hann í háttum að því sagt er.

Það var einn tíma er Jón átti heima á Berunesi að kunningi hans upp í Héraði ætlaði að finna hann. Fór hann ofan Þórdalsheiði og út Sléttuströnd; á henni er í einum stað steinn afar mikill og er kallaður Skemmusteinn. Þegar maðurinn fer hjá steininum veit hann ekki fyrri til en Jón kunningi hans kemur þar út úr steininum og heilsar honum vingjarnlega. Maðurinn varð forviða sem nærri má geta; kvaðst ekki hafa vænt hans þar, en ætlað að hitta hann heima á Berunesi. Jón sagði hann skyldi halda tafarlaust að Berunesi og bíða þar til hann kæmi heim. Skilja þeir svo; fer Jón inn í steininn, en hinn tafarlaust að Berunesi. (Það er ei heldur nema rúmlega bæjarleið í meðallagi.) En er hann kom þar kemur Jón innan úr bæ og biður hann að koma inn. – Og svo get ég nú ekki sagt meira af Jóni á Berunesi. – Endir.