Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Frá Jóni í Ófeigsfirði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Frá Jóni í Ófeigsfirði

Maður [er] nefndur Jón og var Árnason; hann bjó að Ófeigsfirði. Mikill var hann að vexti og kallmennsku og kallaður margfróður. Gestrisinn var hann, en einkum þótti honum vegur að hýsa langferðamenn; var málreitinn og spurull við þá og vildi láta meta sig fremur öðrum bændum.

Einn vetur að áliðnum degi kom maður nokkur vestan Ófeigsfjarðarheiði; hittir sá Jón og spyrjast þeir almæltra tíðinda. Maður þessi var ötull og vildi ekki gista so snemma dags að Jóns þó hann margbyði það og segði of stutt eftir af degi til að halda til Drangavíkur því þangað ætlaði maðurinn. Fer hann af stað og gengur sem leið liggur. Dimmir þá af nótt og þykknar veður. Norðarlega á sokallaðri Ófeigsfjarðarströnd var kofi einn með rúmfleti og hafði Jón þar aðsetu þegar hann veiddi sel við Hrútey sem þar liggur nálægt. Leggst þá Ísfirðingur upp í annað fletið og vill sofa, en getur ekki. Hann sér þá hvar kemur höfuð af nauti og gengur inn eftir gólfinu, þó án fóta, og dregur eftir sér húðina. Augu vóru sem eldur, en út hangir tunga. Lætur mjög illa í hausi þeim og segir hann dimmt og draugalega: „Gle gle gle gle.“ Lætur hausinn þetta ganga til dags. Var þá hríð mesta með frosti. Ekki lízt manninum að vera þar aðra nótt og snýr hann til bak[a] til Ófeigsfjarðar; tekur Jón við honum vel. En svo varð maður þessi hræddur að hann lagðist veikur um fulla viku. En það er eftir Jóni haft að lítill þætti honum dugur í gesti eftir því sem hann hefði talað kallmannlega þegar vestan kom, og hefði þetta verið leikur sinn til að reyna hann því hitt hefði verið meinlaust glingur sitt. Þegar mannin[um] batnaði fór hann heim til sinna – og endar sagan.