Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Frá uppvexti Þorleifs og gáfum hans

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Frá uppvexti Þorleifs og gáfum hans

Þorleifur hét maður; hann var Þórðarson. Hann var fæddur á efsta bænum í Tungunum eða Hreppunum. Þegar hann var á fyrsta ári sínu eða ársgamall og lá í vöggu þá kom einu sinni stúlka ein ungleg til móður hans; því hún sat hjá barninu. Stúlkan heilsar konunni og biður hana að hjálpa móður sinni því hún liggi á sæng og geti ekki fætt. Konan segist ekki mega fara frá barninu. Stúlkan segist skuli vera hjá því á meðan. Fer þá konan eftir leiðsögu stúlkunnar út fyrir völlinn. Þar kemur hún að hól einum við túnfótinn og voru dyr opnar á hólnum. Konan fer inn og kemur þar að sem kona liggur á gólfi. Hún heilsar henni og hjálpar henni þegar. En er hún hafði laugað barnið og reifað fer hún heim aftur. Sér hún þá að stúlkan ókunnuga er að leika við barnið í vöggunni með kæti mikilli og hló barnið dátt. En þegar móðir Þorleifs kom inn fór stúlkan undireins burt.

Ólst nú Þorleifur upp hjá móður sinni og bar snemma á miklum gáfum hjá honum. Var það hald manna að hann hefði fengið þær af fyrirbænum álfkonunnar. Þorleifur var skáld og þótti hann krafta- eða ákvæðaskáld. Héldu sumir að hann færi með galdur og kölluðu hann Galdra-Leifa. Aðrir kölluðu hann Kjafta-Leifa því þeir öfunduðu hann fyrir mælsku sína og gáfur. Það er sagt að Þorleifur heyrði það einhverju sinni að hann var Galdra-Leifi kallaður; þá kvað hann stöku þessa:

„Þorleifur heiti ég Þórðarson,
þekktur af mönnum fínum;
hafði ég aldrei þá heimsku von
að hafna skapara mínum.“

Hvergi átti Þorleifur stöðugt heimili og fór hann milli vina sinna og sat hjá þeim. Var honum jafnan tekið sem höfðingja hvar sem hann kom. Þorleifur orti kvæði sem heitir Skriftarminning.