Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gísli forspái

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Gísli forspái

Það var í þann tíma er presturinn Jón Jónsson var prestur í Prestbakkaprestakalli[1] að maður nokkur bjó á Ljótunnarstöðum sem næstur bær er við Prestbakka og tilheyrir kot þetta kirkjunni þar. Maður þessi hét Gísli og var sá orðrómur að hann væri forspár er það rættist margt er hann hafði orð á. Hann var greindur maður, stilltur og gætinn, líka fámálugur. Prestur og Gísli voru góðir kunningjar, áttu því jafnaðarlega tal saman um ýmsa hluti. Þess er getið einhvurju sinni að þeir áttu tal saman eftir vanda að þeir töluðu um aldur manna, giftingar og barneignir og so fr., meðal hvurs það kom fyrir í ræðu þeirra að prestur var á því máli að kona sín mundi fyr deyja en hann. Fóru þeir um það nokkrum orðum þar til Gísli sagði sig hefði þó grunað hún mundi þó enn eiga eftir að eiga barn. „En það verður ekki með yður prestur minn,“ kvað karlinn, því þau höfðu lengi saman verið og ei [orðið] barna auðið. Kvað prestur ei mundi þó verða langt millum fráfalls þeirra. En til að komast hjá kappræðum segir karl Gísli: „Máske líka við séum feigir báðir,“ – og með það endaði tal þeirra. Þetta gjörðist síðla um sumarið. So fór líka. Snemma um haustið sama lagðist karlinn Gísli og dó. Prestur söng yfir honum eftir skyldu sinni, en tæpast vóru liðnir fjórtán dagar áður hann var líka dáinn. Rættust þannin orð ens gamla. Ekkja prestsins giftist aftur og átti með þeim manni tvenna tvíbura og deyði síðan eftir sinn í seinna sinni afstaðinn barnburð. Vóru þá liðin frá andláti prestsins tvö ár og eitt misseri.

Líka var það einhvurju sinni er Gísli kom til Prestbakka að dóttur prestsins lá mjög veik og nær dauða komin. Spurði prestur karl hvurt hann héldi ekki að hún dæi, „so veik sem hún er nú“. Hann brosti við og segir: „Ég held hún deyi valla að þessu sinni. Hún á nú eftir að eiga mann og börn hér eftir.“ Stúlkunni batnaði eftir nokkurn tíma og eftir mörg ár eignaðist [hún] bæði mann og börn. Þannin rættist þráfalt það er karl þessi hafði orð á, en það var sjaldan að hann ræddi um slíkt við almenning.


  1. 1811-1835.