Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gísli prestur og Bjarni vinnumaður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Gísli prestur og Bjarni vinnumaður

Gísli prestur Gunnlaugsson Snorrasonar á Helgafelli varð prestur á Kirkjubóli á Langadalsströnd,[1] en þegar hann var þar kominn tók hann til að læra galdra og fjölkynngi sem þá var víða títt á Vestfjörðum. Bjarni hét vinnumaður prests; var hann mjög duglegur maður sem prestur vildi ei missa, en Bjarni vildi löngu vera kominn í burtu, en prestur hindraði hann þar frá langvarandi. Loksins gat þó Bjarni strokið eitt sumar með sláttarbyrjun, kom sér þá til sjóar í fiskiveiðar. Fólki á Kirkjubóli þótti þetta allmikið og kærði það mjög fyrir presti, en hann kvað að Bjarni mundi bráðum aftur koma.

Einu sinni sem oftar réri Bjarni, en þegar hann var til miða kominn sýndist honum fiska reka í kringum bátinn, hvar á honum sýndist sitja móðir sín í hrúkukorni, sem fyrir nokkru var þó dauð. Varð þá Bjarni mjög óttasleginn og óþreyjufullur og bað lagsmenn sína flytja sig sem fljótast til lands, hvað þeir og gjörðu. Linnti hann þá ei ferðum sínum fyrr en hann kom heim til prests síns, hjá hvurjum hann var síðan til dauðadags.

  1. Séra Gísli var prestur á Kirkjubóli 1783-1813.