Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gónapyttur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Gónapyttur

Pyttur einn heitir Gónapyttur. Hann er á milli Refsstaða og Vesturár framan við Laxá. Hún rennur eftir dalnum og rennur í hana lækur úr pyttinum. Eyjólfur hreppstjóri á Móbergi í Langadal hafði í seli upp á Laxárdal. Drengur var í selinu og gætti fjárins. Einn dag veiddi drengurinn í pyttinum og hafði þó Eyjólfur bannað honum það. En er hann kom heim að selinu með veiðina var snemmbær kýr lærbrotin á stöðlinum. Drengurinn hugsaði að eigi skyldi þetta aftra sér frá veiðinni og fór daginn eftir og veiddi. En er hann kom heim var kýrin dauð. Þá fór honum ei að finnast til og hætti að veiða. Síðan hefur engi veitt í pyttinum, enda er nú engi veiði í honum.