Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Göldrótti presturinn
Göldrótti presturinn
Einu sinni var prestur á Suðurlandi og sögðu menn hann væri göldróttur. Hann keypti sér far með hollenzkri duggu austur til Njarðvíkur. Lögðu þeir nú í haf og fengu óveður og hrakninga. Ímynduðu þeir sér að þessi óveður væru að kenna þessum íslenzka manni; tóku þeir því ráð sín saman að drepa hann, og áður en hann yrði var við tóku þeir hann og skáru fyrir borð, en í þessu sáu þeir að þetta var káetuhundurinn. Í öðru sinni skáru þeir hann fyrir borð, en þá var það kokkurinn. Í þriðja sinni gjörðu þeir hið sama; sáu þeir þá að það hafði verið bátsmaðurinn. Urðu þeir þá hræddir við prest og hlýddu honum í öllu. Tók hann nú við stjórn og stýrði undir Njarðvíkurfjöll og bað þá að flytja sig til lands. Fluttu þeir hann í land, en hann skipaði þeim að snúa bát frá landi og bíða sín, því annars skyldi það verða þeirra bani. Sáu þeir að hann gekk upp fjallið og þar hvarf hann inn í hellinn og var þar tímakorn, kemur síðan aftur með mikilli ferð og skipar þeim að halda frá landi það hraðasta. En þegar þeir voru komnir í dugguna hljóp fjallið í sjó ofan. Hafði hann ekki annað meðferðis úr fjallinu en eina bók er hann bar undir hendinni. Fluttu þeir hann síðan aftur heim til sín.
Um veturinn rak hval á reka hans. Sögðu menn hann mundi hafa seitt hann. Margir vóru þurfandi og kom því mikill fjöldi fólks er báðu hann að gefa sér og selja, en hann skipti upp öllum hvalnum og gaf hann allan og tók ekkert til sín af honum. Annan og þriðja vetrana ráku hvali, en hann gaf þá alla, en þegar þeir fátæku og hungruðu báðu guð að launa honum fyrir gjafir sínar sagði hann: „Guð blessi ukkur, en fyrirgefi mér.“ Hafði prestur þessi verið hugljúfi hvers manns og dó í góðri elli.