Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdra-Þorleifur og presturinn í Bjarnanesi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Galdra-Þorleifur og presturinn í Bjarnanesi

Einn tíma bjó prestur í Bjarnanesi í Austur-Skaftafellssýslu. Hann var nýkvæntur er þessi frásaga gjörðist og átti afbragðsvæna konu. Stóð bú þeirra með miklum blóma þar þau skorti ei nóg efni. – Næsta sumar eftir þau giftust fara þau bæði í kaupstað á Berufjörð og tveir vinnumenn þeirra. Áðu þau á grundunum fyrir neðan Geithella í Álftafirði, sem siður er allra Suðursveitunga, og reistu þar tjald og lögðust síðan til svefns. En um morguninn er þeir vakna er prestkona burt úr tjaldinu. Fara þeir heim að Geithellum og spyrja hvort hún sé þar, en fólk segir hún hafi ekki þar komið. Síðan var safnað mönnum og hennar leitað í tvo daga; en hún fannst hvergi og varð prestur mjög hryggur af hvarfi konu sinnar, hætti því ferðinni og hélt sjálfur heim og lagðist í rekkju svo hann hætti að mestu embættisstörfum. Leið svo sumarið og veturinn fram undir jól að prestur var lítið á flakki. En á aðfangadag fyrir jól var vont veður með kafaldi, og um kvöldið sem vinnumaður prests var kominn í bæinn og atlar að loka honum sér hann að maður gengur að dyrum allur snjóbarinn. Vinnumaður spyr hann að nafni. Hann kveðst Þorleifur heita og vera sunnan úr Suðursveit; kannaðist þá vinnumaður við hann. Þorleifur beiðist gistingar. Segir heimamaður honum sé gisting til reiðu – „og skaltu koma með mér inn“. Gjörir Þorleifur það; og er hann er kominn inn í baðstofu þá verður hann mjög skrafhreifinn. Meðal annars fer hann að tala um hvarfið á prestskonunni, en fólkið biður hann að tala ei margt þar um, svo eigi ýfist að nýju harmur prests, en prestur var inn í húsi í öðrum enda baðstofu. Leið svo nóttin til morguns. Fer þá ráðskona að hita kaffe, og er Þorleifur verður þess var passar hann sig inn í hús til prests, heilsar honum og þakkar fyrir næturgreiðann. Prestur tekur því glaðlega og biður hann hvergi fara í dag því svo vont sé veður – „og hefi ég gaman af að skrafa við þig því þú ert svo skemmtilegur.“ Þorleifur þekkist þetta boð prests. Nú kemur ráðskona með sinn kaffebolla handa hvorum þeirra. Þorleifur tekur þá flösku af brjósti sér og hellir úr henni út í sinn bolla og þar næst í bollann hjá presti. Síðan fara þeir að drekka kaffe og smábætir Þorleifur í bolla prests þar til hann er orðinn glaðvær af víninu. Síðan fara þeir að ræða um hitt og þetta, þar næst um hvarf prestkonunnar og dofnar þá yfir presti og segist hálfkjökrandi aldrei sjá hana framar. Þorleifur mælti: „Hún mun þó enn á lífi konan yðar.“ Prestur kvað það ei mögulegt vera og spurði kall ef hann vissi nokkuð til konu sinnar. Kall kvað það ei ómögulegt. Verður prestur nú mjög glaður og biður Þorleif að freista til að uppgötva hvar hún muni niður komin, en hann kveðst ei reyna það fyrr en í sumar í sama mund og hún hafi hvorfið. Býður prestur honum þar að vera og þiggur kall það. Gjörir prestur hann að ráðsmanni sínum og býður öllu fólkinu að hlýða honum. Tekur nú búsýsla prests bráðum bótum því kall var hinn hyggnasti í þeim sökum.

Líður svo tíminn fram að kauptíð um sumarið. Lætur Þorleifur þá búast við kaupstaðarferð og skipar að leggja reiðing á tíu hesta. Þar næst heimtar hann reiðhestinn prestkonunnar sem var og skipar leggja á hann söðul hennar. Er nú svo haldið af stað af sömu vinnumönnum og sumarið áður; eru prestur og Þorleifur líka með í ferðinni. Segir ekki frá þeim fyrr en þeir koma á Geithellagrundir sama dag og sumrinu áður. Biður Þorleifur þá að vísa sér á tjaldstaðinn þann í fyrra og biður þá að leita uppi tjaldsúluförin – „því tjaldið nú,“ segir hann, „verður að standa allteinu og í fyrrasumar.“ Hinir gjöra sem hann bauð, og sem þeir höfðu um búizt segir Þorleifur það gilda þeirra líf ef þeir gangi úr tjaldi þessa nótt. Síðan leggjast þeir til svefns og er Þorleifur yztur við tjaldskörina; og sem hann hyggur alla sofnaða fer hann út, en prestur lá vakandi og sprettir rifu á tjaldið svo hann sér alla aðburði kalls. Þorleifur ristir nú stóran hring í kringum tjaldið. Síðan hvimar hann augunum í allar áttir og tautar eitthvað fyrir munni sér. Sér þá prestur að huldufólk drífur að öllumegin unz hringurinn er alskipaður. En Þorleifur mælti við raust meðan álfafólkið var að koma: „Flýtið ykkur! Flýtið ykkur!“ Nú skynjar hann allt álfafólkið í hringnum og mælti: „Ekki er prestskonan hér.“ Síðan mælti hann til álfanna: „Farið burtu og hafið þakk fyrir ómakið.“ Nú risti hann annan hringinn utan yfir þeim fyrsta og svo þann þriðja. Hafði hann sama formála og sömu orð sem í fyrsta sinni, en ekki kom prestskonan. Þá ristir hann enn fjórða hringinn utan yfir hina alla og var sá miklu stærstur. Síðan stefnir hann í þenna hring þar til ei var nema þriggja manna rúm autt. Hyggur hann nú að því álfafólki sem komið var og sér þar ekki prestskonuna. Þorleifur lítur nú í allar áttir. Síðan krýpur hann niður og þylur nokkur galdraorð. Þá sér prestur að konur tvær koma á svonefndan Krákuhamar, sem er austan við Geithellagrundir. Þær leiða konu milli sín. Það var prestskonan. Þessar konur stigu svo langt til að þær höfðu í einu spori af hamrinum og í það pláss sem þeim var atlað í hringnum. Sem þær eru nú komnar snýr Þorleifur sér að þeim og mælti: „Hvaðan eru þið komnar?“ „Norðan úr Dyrfjallstindi,“ svöruðu álfkonurnar; „við þoldum ei lengur að sita – þó við reyndum til þess – þegar öllum álfum var stefnt úr þessum fjórðungi landsins.“ Þá mælti Þorleifur til þeirra: „Skilið þið nú prestkonunni í sama ástandi og þið tóku hana?“ Þær kváðu já við. „En ef þið ljúgi,“ segir hann, „þá skuli þið hér rotna í sundur bein frá beini og taug frá taug,“ en þær afsökuðu sig. Síðan tók Þorleifur í hönd prestskonunni og mælti til álfkonanna: „Hafið skömm fyrir ykkar tiltektir!“ En til álfafólksins sagði hann: „Hafið þökk fyrir ykkar hérkomu.“ Síðan hvarf það allt á braut, en Þorleifur leiddi konuna inn í tjaldið til prestsins. Varð þar mikill fagnaðarfundur. Sagði hún þeim að álfkonur þessar hefðu atlað að þrengja sér að eiga son annarar þeirrar, en hún vildi það ei. Um morguninn fóru þau öll austur í kaupstað og lét prestkona taka út veizluföng. Og er þau komu heim létu þau drekka fagnaðaröl og buðu til öllu sveitarfólki, en Þorleif höfðu þau æ síðan fyrir ráðsmann og sinn bezta vin.