Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdra-Þormóður

Úr Wikiheimild

Eitt sinn bjuggu hjón við fjalllendi hvar fjall var nálægt og gljúfragil í fjallinu. Hjónin [áttu] eina stúlku barna gjafvaxta orðna. Einn morgun þegar hjónin vakna þá er stúlkan horfin og finnst hún hvorgi. Á sama tíma var förukall flakkandi víðs vegar er hét Þórmóður er menn vissu að var fjölkunnugur. Kona bóndans er átti hvorfnu stúlkuna fer að hvetja bónda sinn að leita upp þennan Þórmóð. Bóndi fer af stað og [hefur] mikið fyrir [að] leita hann upp og þegar bóndi finnur Þormóð biður bóndi hann að hjálpa sér og segir honum frá vandræðum sínum og lofar honum öllu sem hann geti til launa. Þórmóður segist vita hvar stúlkan sé, en ekki geti [hann] bætt úr vandræðum bónda því það kosti sitt líf ef hann fari að ná stúlkunni; hún sé [í] gilinu sem sé í fjallinu fyrir ofan bæinn hjá tröllum sem ætli að gifta hana syni sínum, þríhöfðuðum þussa, og séu þau að safna í veizluna hrossa- og mannakjöti, því innan fárra daga eigi að samansafna öllum nálægum tröllum til brullaupsins. Bóndi verður því ákafari að biðja um hjálpina. Þormóður lofar ekki miklu, en hverfur frá bónda. Litlu síðar kemur hann með stúlkuna og skipar nú foreldrum hennar að geyma hana vandlega því nú komi skessan, tilætluð tengdamóður hennar, og ætli að drepa sig. Í því kemur skessan með uppreidda öxi með þeirri kveðju: „Þú, þú Þórmóður.“ Þormóður biður hana lofa sér að lesa faðirvor sitt. Hún spyr hvort það faðirvor hans sé langt. Ekki segir [hann] það sé, hún skuli þá mega högga sig og skuli hann hafa höfuðið í knjám hennar meðan hann sé að lesa. Hún lofar þessu. Eftir litla stund spyr hún hvort faðirvor hans sé ekki á enda. Hann segir það sé nú senn. Að lítilli stundu stendur hann upp og segir nú megi hún högga, en þá getur hún hvorki hrært legg né lið, og með það tekur Þórmóður öxina og höggur skessuna sundur, og [í] því kemur bóndi skessunnar, en þegar hann sá helför heillu sinnar sneri hann undan og heim og er ekki meira sagt af honum.