Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdra-Fúsi og Leirulækjar-Fúsi

Úr Wikiheimild

Um sömu mundir sem Leirulækjar-Fúsi var sá maður uppi á Hornströndum sem kallaður var Galdra-Fúsi. Hann var fjölkunnugur mjög og fóru sögur víða af honum. Leirulækjar-Fúsa var mikil forvitni á að reyna kunnáttu hans og því tók hann sér ferð á hendur og brá sér vestur; ekki er þess getið hvernig hann fór, hvort heldur landveg, á lög eða í lofti; en hann kom til Galdra-Fúsa um kvöld og upp á gluggann hjá honum og segir: „Sælir verið þér Galdra-Fúsi, nafni minn.“ Galdra-Fúsi tók ekki undir við hann; því hann fann að það var sér ofurefli að etja við Leirulækjar-Fúsa. Þegar Leirulækjar-Fúsi fékk engin svör aftur hjá nafna sínum segir hann: „Fyrst þú svarar mér ekki þá smíði andskotinn á þig handarhald og teymi þig á því til helvítis.“ Eftir það fór Leirulækjar-Fúsi heim aftur. En það er frá Galdra-Fúsa að segja að tvö æxli uxu á honum eftir þetta, annað á brjósti hans, en hitt á baki; þau uxu bæði upp á við þangað til þau náðu saman fyrir ofan aðra öxlina og greru þar saman. Eftir það hvarf Galdra-Fúsi og hefur ekki sézt síðan.