Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdramál

Úr Wikiheimild

Að lyktum skal hér getið galdramála. Þau voru alltíð á Íslandi á miðöldunum og allt fram undir 1700 eins og í öðrum löndum, og bera „Árbækur“ landsins þess víða vitni. Einkum voru það þó gandreiðir og galdramessur sem hér komu til greina. Hjá Ingólfsfjalli sem er mikið fjall milli Ölfuss og Grafnings heitir á einum stað Valakirkja; þar er sagt að galdramessur hafi verið haldnar. Munnmæli Dana segja að slíkar galdrasamkundur hafi verið haldnar í „Hækkenfeld“ eða „Hekkelfjeld“, þ. e. í eldfjallinu Heklu. Sveinn lögmaður Sölvason († 1782) hefur skrifað skorinort um galdramál í riti því sem hann kallaði „lus criminale“ en þótt hann fullhermi að aldrei hafi nein slík mál verið fyrir rétti frá byrjun átjándu aldar, og er það sómi fyrir Ísland í samanburði við önnur lönd að frá því í lok seytjándu aldar eru galdraofsóknir og hneyksli það sem þeim var samfara horfið úr réttarvenju hér. Árið 1685 var maður nokkur, Halldór Finnbogason að nafni, brenndur fyrir galdur; hinn síðasti dómur um galdrabrennu var kveðinn upp 1690 og var hinn dæmdi þá náðaður af kóngi fyrir milligöngu landfógeta og amtmanns. En í öðrum löndum og það þeim sem talin eru einna bezt menntuð í heimi héldust ekki einungis málasóknir um galdur, heldur brennudómar og galdrabrennur langt fram á næstliðna öld.