Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdrastafir og galdrabækur
Galdrastafir og galdrabækur
Alloft hafa galdramenn við haft bæði töframyndir sem kallaðar eru galdrastafir og formála ýmsa sem ýmist fylgdu stöfunum eða voru þuldir frálausir frá þeim. Sumra þessara stafa og formála er getið hér og hvar í skrifuðum skræðum sem nefndar eru galdrabækur. En slíkar bækur eru nú ekki orðnar nema lítill svipur hjá sjón hjá því sem voru þær Rauðskinna Gottskálks Hólabiskups hins grimma og Gráskinnurnar sem sagt er að hafi lengi verið til fram eftir öldum við skólana á Hólum og í Skálholti. Enda loddi það álit lengi við skólapilta og þá sem útskrifuðust úr skólanum að þeir væru fjölkunnugir. En þessar bækur eru nú fyrir löngu týndar og tröllum gefnar og allt eins hinar sem getið verður í galdramannasögunum á eftir, en allt um það skal ég geta hér fáeinna galdrastafa og formála sem enn hrekjast manna á milli bæði í slitrunum af hinum svo nefndu galdrabókum og í munnmælum.
Það er líklegt eftir því sem almenningur hefur gjört sér í hugarlund um galdur að rúnirnar séu undirrótin til hans og styðja þá ímyndun ágætlega ýmsar kviðurnar í Sæmundar-Eddu, en einkanlega Brynhildarkviða I [Sigurdrífumál]. Og að vísu er bágt að neita því að rúnir hafi verið hafðar til hégilju þeirrar sem nefnd hefur verið galdur, stundum í sameiningu með almennum latínustöfum, stundum einar sér í heilum fylkingum eða heil orð rituð í rúnum; stundum eru margir rúnastafir samandregnir í eina mynd og heitir það bandrúnir. En úr bandrúnum held ég hafi myndazt aftur skrípi þau sem enn eru kölluð eiginlegu nafni galdrastafir og sem sinn hefur myndað með hverju móti ef til vill, en þó verið nefndir sama nafni.
Galdrastafir
[breyta]Freyr | Fjölnir | Fengur | Þundur | Þekkur | Þrumur | |
Stafir til að sjá þjóf | Stafir móti illum sendingum | |||||
Ægishjálmur | Róðukross | Kaupaloki | Ginnir | Þórshamar | Ginfaxi | Angurapi |