Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdraveður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Galdraveður

Sá sem vill gjöra galdraveður tekur höfuð af fiski þeim sem langa heitir, óupprifið og óklofið, og lætur því fylgja magann óskertan og bindur fyrir neðri endann, en skrifar galdrastafinn ginfaxa á gómhimnuna, sumir segja gapa líka, – setur svo höfuðið upp á stöng og festir það svo að niður er það sem niður var á fiskinum. En munn löngunnar lætur hann gapa í þá átt sem hann vill að vindur komi úr. Þá mun brátt hvessa svo mikið að maginn fyllist af vindi og standi beint aftur eins og rófa. Helzt það veður meðan höfuðið er á stönginni.

Það er svo sem auðvitað að hvur sem hefir brúkað þessi galdrabrögð (gandreiðarbeizli, tilbera, skollabuxur, brýnslugaldur, glímugaldur, veðragaldur), eitt eða fleiri, hefir brúkað einhvurjar galdraþulur til að láta galdurinn hrífa, því allur galdur hefir meðfram verið innifalinn í þeim.