Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gandreið

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni kerling vestur á landshorni sem hvarf úr rúminu frá bónda sínum á hvurri nýársnótt, og á nýársmorgun var vinnumaður þeirra alltaf dauður í rúmi sínu. Það var orsökin að kerling átti vinkonu austur á landshorni og fór að finna hana og reið manninum við gandreiðarbeizli og sprengdi hann. Þetta lagðist í vana og fór svo að enginn vildi vera þar vinnumaður. Um síðir fekkst einn til þess sem þótti vera margkunnugur. Hann var þar í góðu yfirlæti fram að nýári. Á nýársnótt vakir hann í rúmi sínu og veit hann ekki fyrr til en kerling kemur og leggur á hann beizli og bregður honum í hestlíki og ríður af stað og var ekki lengi á leiðinni þar til hún kom austur á landshorn að bæ vinkonu sinnar. Þar batt hún hestinn við dyrastaf og fór inn og var lengi inni. Á meðan gat hann nuddað fram af sér beizlið og stóð við kampinn og hélt á beizlinu. Loksins kom kelling út og þegar hún gekk fram göngin heyrði hann hana segja: „Vertu nú sæl, vina mín,“ og hún gjörði ráð fyrir að finna hana oftar, en í því hún rak út höfuðið setti maðurinn beizlið upp á hana og varð hún þegar að hrossi. Hann fer á bak og af stað. Segir ekki af ferð hans fyrr en hann kom vestur í Fljótshlíð.

Þar kemur hann að bæ og fer [af] baki, vekur upp bónda og biður hann að gjöra bón sína. „Það er svo ástatt,“ segir hann, „að ég er búinn að ríða undan merinni minni svo hún er járnalaus á öllum fótum. Verð ég að biðja þig að hjálpa mér um blöð undir hana því ég á langa leið fyrir hendi.“ Bóndi fer á fætur og finnur skeifur undir merina og járna þeir hana. Segir komumaður að óhætt sé að láta hafa nóg (negla ekki tæpt í hófinn) því merin sé nógu hófastór. Þegar þetta var búið kvaddi maðurinn bónda og fór heim vestur. Hann sleppti kerlingu í rúm sitt og tók af henni beizlið og hafði það síðan. Hann lagðist í rúm sitt og var heill, en þó eftir sig, en bóndi vaknaði um morguninn við það að kerling lá með háhljóðum fyrir ofan hann og voru skeifur negldar í hendur hennar og fætur. Varð að skera út úr öllum þeim götum og varð kerling aldrei jafngóð eftir, og aldrei fekk hún beizlið aftur svo hún gat ekki fundið vinu sína framar.