Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gefinn byr

Úr Wikiheimild

Þegar Didrik Hölter († 1787) var kaupmaður á Skagaströnd fyrir konungsverzlun þá sendi hann einn tíma menn sína vestur á Strandir til Reykjarfjarðar. Þeir höfðu byrðing mikinn og gekk þeim vel ferðin vestur yfir flóann. En áður þeir kæmist aftur af Ströndum kom á landnyrðingur ákafur rétt á móti þeim. Lágu þeir nú lengi til byrjar svo að eigi gaf og hélzt æ hinn sami stormur á landnorðan. Skipverjum leiðist þetta; taka þeir nú það ráð að þeir fara til fundar við þann mann er Sigurður er nefndur; hann bjó þar skammt frá og var haldinn margkunnandi. Þeir biðja hann gefa sér byr austur yfir flóann. Hann kvaðst það ei mega. Þeir biðja hann því betur þangað til hann mælti: „Berið á skip í kvöld og verið tilbúnir að öllu, en látið skipið fljóta fyrir atkeri í nótt; leggið svo af stað fyrir dag á morgun.“ Skipverjar fóru svo með öllu sem hann sagði fyrir. Risu þeir upp þegar í dagan og fóru til skips. Sigurður fylgdi þeim til strandar. Hann gekk að þúfu einni og var því líkast sem hann gerði þar bæn sína yfir þúfunni. Heyrðu þeir að hann sagði: „Ég vil hann útsunnan.“ Þá heyra þeir svarað í þúfunni: „Landnorðan.“ Sigurður stappar nú fæti sínum á þúfuna og mælti: „Segðu útsunnan, djöfullinn þinn.“ Og í sama bil rauk hann upp á útsunnan. Fengu Skagstrendingar nú hagstæðan byr og tóku land í Höfðakaupstað. En þegar jafnskjótt sem þeir voru lentir gekk veðrið til landnorðurs aftur.