Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Glímugaldur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Glímugaldur

Sumir menn hafa brúkað glímugaldur og geta þeir fellt hvurn mann sem ekki veit af galdri þeirra, hvað sterkur eða góður glímumaður sem er. Til þess skrifa þeir á miða sem þeir líma neðan í skóna sína, tvo galdrastafi. Heitir annar gapi, en annar ginfaxi. Ýmsir menn þykjast hafa séð þessa stafi og geta gjört myndir eftir þeim, en þeim ber ekki saman um lögun þeirra (þó er ginfaxi oftast svipaður þessari mynd):

Þeir sem hafa þetta á fótunum mega ekki stíga í vætu, þá bila miðarnir, og er þá ónýtur galdurinn. Þó fer verr ef sá veit galdurinn sem glímt er við, því þá fellur sá sem galdurinn brúkar, og er þá áreiðanlegt að hann beinbrotnar.