Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Glettur sýslumanns og prófasts

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Glettur sýslumanns og prófasts

Högni prófastur þótti í mörgum hlutum mikilhæfur maður og merkilegur og þó fornfróður og fór vel með kunnáttu sína og bekktist aldrei til við menn að fyrra bragði; þó var hann ekki mjög vinsæll maður af alþýðu. Einna mest bar á ertingum Jóns sýslumanns Ísleifssonar við hann, en þó finnst þess ekki getið að séra Högni hafi leitað á hann aftur, en varðist aðeins áleitni Jóns og klekkti nokkuð á honum að lokunum. En Jón var bæði miskynntur mjög og þótti fjölkynngismaður á þeirri tíð.

Einu sinni um vetur þegar séra Högni var ekki heima kom upp eldur í heygarðinum og fjósinu hjá honum á Stafafelli, en hvorttveggja var spölkorn frá bænum. Enginn vissi neina von til þess að þar hefði eldur eða ljós komið nærri til íkveikju; en eldur sá varð ekki slökktur og brann hvort tveggja til kaldra kola, heyin og fjósið. En svo vildi til að um sama leyti sem þessi brenna varð var eldurinn dauður í bænum á Stafafelli og vildu menn nota brunaeldinn til að kveikja við hann og ná eldi í bæinn. En jafnóðum slökknaði sá eldur aftur á leiðinni milli fjóss og bæjar og svo kulnaði út brunaeldurinn að fara mátti eftir eldi á aðra bæi. Eftir þetta kom Högni prófastur heim og varð vel við skaða sínum. En yfir því einu kvartaði hann hvað illt og örðugt hann hefði átt með að verja fólkinu sínu að kveikja við brunaeldinn og bera þaðan eld í bæinn; því það sagði hann að ef því hefði tjónkazt það mundi allur bærinn hafa brunnið til kaldra kola sem fjósið og heyin.

Það var öðru sinni að séra Högni ætlaði út í hérað það sem Nes heitir og skilur þau Almannaskarð frá Lóninu. Prestur var þá gangandi og kom að Krossalandi; þar bjó kona sú sem Hólmfríður hét. Hún átti rauðan hest góðan og bað prófastur hana að ljá sér hann. Hún var fús til þess. Þá segir séra Högni við Hólmfríði er hann fór á stað: „Annar hvor okkar Rauðs kemur ekki aftur Fríða mín.“ Hún svarar: „Guð láti allt ganga skaplega til og láti Rauð ekki koma aftur.“ Síðan fer prófastur sem leið liggur upp á Almannaskarð; en hæst á skarðinu datt hesturinn dauður undir honum. Þegar hann gekk frá hestinum kvað hann þetta:

„Hér liggja hrossbein
harðan við sandstein,
en Högni ber hægt mein.“

Hvor tveggja þessi áleitni við Högna prófast var bæði af honum og öðrum kennd Jóni Ísleifssyni. Og enn er þessi saga um eljaraglettur þeirra:

Í bæjardyrunum á Stafafelli var hella ein sem skrapti nokkuð þegar á hana var stigið. Eitt kvöld er allir voru háttaðir á Stafafelli heyrði séra Högni að hellan gjögti til eins og um væri gengið. Hann fór þegar á fætur og fram úr húsi því sem hann svaf í og gekk þar um gólf fyrir framan dyrnar alla nóttina. Þegar komið var í fjósið á Stafafelli um morguninn lá ein kýrin dauð á básnum. Þegar farið var að gera hana til var hún öll innanskinns blá og marin og lét prófastur ekki hirða neitt af henni, nema annað lærið skipaði hann að taka og hengja upp í eldhús, en bannaði að taka á því fyrri en hann segði sjálfur til. Var svo lærið geymt lon og don heilt ár eða lengur unz Jón sýslumaður kom að Stafafelli og gisti þar nótt. Þá skipaði séra Högni að sjóða kýrlærið góða og var svo gjört. Var það síðan borið á borð fyrir sýslumann ásamt öðru. Prófastur var þá ekki við eftir því sem sumir segja. En þegar Jón ætlaði að renna niður fyrsta bitanum sem hann skar af lærinu stóð hann í honum svo hann kom honum hvorki upp né niður. Var þá sóttur séra Högni og kom hann þegar til Jóns og slær svo mikið högg milli herða honum að bitinn hrökk fram úr Jóni með blóðgusu. Þá sagði Jón: „Farðu nú bölvaður séra Högni,“ því honum féllst allur ketill í eld er hann sá blóðið úr sér sem kom upp á bitanum og með honum, sem sagt er um alla galdramenn. En önnur sögn er sú að Jón hafi ekki látið fyrsta bitann af lærinu upp í sig, heldur hafi hann gefið hundinum sínum hann, og drapst hann þegar í sömu sporum. Þegar Jón sá það er sagt hann hafi sagt við prófast sem eftir þeirri sögusögn sat við borðið hjá honum: „Langrækinn ertu séra Högni.“ Síðan átu þeir báðir af lærinu og varð ekki meint af, því ólyfjanin átti öll að fylgja fyrsta bitanum. Eftir það vita menn ekki til að Jón hafi bekkzt til við prófast né heldur að prófastur hafi launað honum ljóshöldin með öðru en þessu.