Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Grímseyjarför Bjarna

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Grímseyjarför Bjarna

Bjarni er maður nefndur og var kallaður fíritanni. Ei er mér kunnugt um ætt hans né uppruna, en sjómaður er sagt hann hafi verið hinn bezti og lýtur til þess saga ein er ég hef heyrt um hann. – Þá átti hann heima í Héðinshöfða á Tjörnesi hjá sýslumanni þeim er þar bjó og Vigfús[1] er nefndur, og var formaður fyrir skipi hans.

Eitt haust sendi sýslumaður hann til Grímseyjar að sækja skreið. Gekk þeim greiðlega ferðin þangað; en meðan þeir vóru í eyjunni gjörði veðrabálk mikinn og tepptust þeir þar í sex vikur. Héldu þeir félagar til á Básum; þar var kelling ein gömul og forn í skapi; lagði Bjarni það mjög í vanda sinn að erta kellinguna og hafði við hana ýmsar glettur.

Einn morgun þegar Bjarni og hans förunautar eru búnir að dvelja fyrrnefndan tíma í eyjunni er hann mjög snemma á fótum. Var þá veður hægt, en frost mikið og ótryggilegt útlit. Vekur hann nú menn sína og biður þá að klæðast skjótt og búast til brottferðar, „því ef við komustum ekki í land í dag megum við sitja hér í allan vetur.“ – Þeir búast með flýtir, og þó þeim þækti ei árennilegt sjóveður vildu þeir ei mótmæla formanni sínum; fara þeir nú að ferma skipið. Nú er að segja af kellingunni þeirri er Bjarni hafði ert, að hún var mjög lasburða fyrir elli sakir og lítið á faraldsfæti, en hafði þó þann sið að ganga út með kopp sinn hvurn morgun er hún var klædd. Bjarni sagði mönnum sínum að sér þækti betra að vera kominn á flot áður en kellingin kæmi út, enda stóðst það á, að þegar þeir vóru búnir að róa fáein árartog kemur kelling út með kirnu sína og gengur ofan á hlaðvarpann. Hún setur þá hönd fyrir auga og sér hvar skipið fer, og var ei lengra á milli þess og hennar en svo að vel mátti talast við, því að bærinn stendur fast við sjóinn. Hún tekur þá svo til máls: „Þar fer þú nú Bjarni og er ekki víst að þú verðir eins málhvatur í kvöld þegar þú lendir eins og þú hefur verið að erta mig í vetur í bænum á Básum.“ Bjarni heyrði orð hennar og segir: „Það getur vel orðið sem þú segir, en líkast þækti mér að þú yrðir heldur ekki svona prunkin í orði þegar þú ert búin að steypa úr koppnum þínum á morgun.“ Ekki er getið að þau hafi talazt fleira við. – Heldur Bjarni nú áfram, en þegar þeir vóru komnir sem svaraði vel hálfri viku sjávar frá eyjunni brast á með stórhríð svo dimma að ei sá frá borðstokknum á skipinu. Skipverjar urðu þá mjög hræddir og kváðu það auðsjáanlegt hvar þetta ætlaði að lenda, en Bjarni hughreysti þá og sagði: „Það væri synd að segja að guð hefði ekki skapað nógar hafnir fyrir bátinn þann arna, þar sem fyrst er allur Eyjafjörður og ef maður nær honum ekki, þá er Naustavík; bregðist hún, þá er Flateyjardalur og Húsavík og allt Tjörnes. Fari nú svo að allt þetta bregðist, þá er Slétta nógu löng og Langanes, og finnst mér því óþarfi að kvíða því að maður komist ekki að landi.“ Segir ekki meir af orðræðum Bjarna við þá, en hann stýrði skipinu í veðrinu og komst um kvöldið með öllu heilu og höldnu í Héðinshöfðakrók þar sem hann átti heima.

Nú er að segja frá kellingunni á Básum. Morguninn eftir að þau Bjarni töluðust við, kom hún út með koppinn eins og hún var vön, en þegar hún ætlaði inn aftur rasaði hún á hlaðvarpanum og lærbrotnaði, og varð að bera hana inn í fjórum skautum, og þótti þannig rætast orð Bjarna.

Í veðri því er var þegar Bjarni fór til lands komu hafþök af ís og lá allt til vordaga, og kom svo að því er hann hafði sagt félögum sínum um morguninn er hann fór frá Básum.

  1. Vigfús Jónsson (1736-1795), sýslumaður í Þingeyjarþingi, bjó í Héðinshöfða 1770-81.