Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Guðmundur Berþórsson

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Guðmundur Bergþórsson

Guðmundur skáld Bergþórsson var allur visinn öðrumegin sem kunnigt er, og er það sögn flestra manna að vanheilsa hans hafi komið til af því að þegar hann var nærri fjögurra vetra og svaf þá enn í vöggu hjá foreldrum sínum á Stöpum, sem títt var fyrrum að börn gerðu unz þau voru sex eða sjö vetra, hafi móðir hans sem þótti forn í skapi og fóstra Guðmundar sem og var skapvargur skipzt ógurlegum illdeilum og formælingum, en vaggan stóð á milli þeirra. Aðrir segja að móðir hans hafi formælt honum og formælingar hennar hafi orðið að áhrínsorðum svo að hann varð krypplingur síðan alla ævi. Til þess bendir Guðmundur víða í kvæðum sínum og rímnamansöngvum að hann hafi verið heill heilsu framan af ævi sinni og eins þykir hann ámæla vondum konum eins og hann hefði átt þeim illt upp að inna; virðist vísa þessi benda til þess:

„Býst ég við að gefnir gulls,
gustkaldar í orðum,
að mér búi enn til fulls,
ekki síður en forðum.“

Það er almælt að Guðmundur hafi verið eitthvert hið kröftugasta ákvæðaskáld. Einu sinni mætti hann manni nokkrum ríkum og rembilátum. Guðmundur heilsaði honum og tók ofan, en hinn lét sem hann sæi það ekki. Þá kvað Guðmundur:

„Fyrst þú vilt ei veita anz,
versti fjandans maki,
andskotinn og árar hans
ofan fyrir þér taki.“

Þá er sagt að hinn hafi ekki komizt áfram fyrir púkum sem þyrptust í kringum hann og voru alltaf að taka ofan þangað til hann auðmýkti sig fyrir Guðmundi og hann kvað árana burt frá honum.

Guðmundur neytti þó ekki gáfu sinnar eingöngu til að hefna sín á óvildarmönnum sínum því sagt er að hann hafi bjargað mörgum með henni frá draugaárásum og vondum öndum og vantaði aðeins lítið á að hann gæti læknað með henni eigin kröm sína. Svo er haft eftir manni þeim sem Andrés hét og var Jónsson og átti heima í Andrésarbúð, örskammt frá Hólsbúð þar sem Guðmundur var, að hann hafi sagt þessa sögu vini sínum á Norðurlandi:

„Þegar ég var nálægt tvítugur að aldri heyrði ég Guðmund segja að nú væri aðeins tveir dvergar til á Íslandi; byggi annar þeirra í björgum nokkrum norður á Langanesströndum, en annar væri nágranni sinn og byggi í steini miklum skammt frá Hólsbúð; ætti hann þau smyrsli sem gæti læknað sig svo að hann yrði alheill heilsu sinnar ef hann gæti til þeirra náð, en þó grunaði sig að formælingakynngi þeirri sem á sér lægi saklausum mundi ekki auðið af sér að hrinda.“ Það var eitt sumar á helgum degi að fólk fór flest eða allt til kirkju nema Guðmundur og var Andrés hjá honum. Þá segir Guðmundur: „Nú vil ég eiga kaup við þig, vinur, er ég hef jafnan reynt trúnað þinn og orðfæð og skaltu nú bera mig hér austur frá húsum að hinum mikla steini er þar stendur og ég mun vísa þér á.“ Sveinninn kvað svo vera skyldi. Síðan bjuggust þeir og bar Andrés hann og setti niður gagnvart steininum þar sem Guðmundur vísaði honum til. Sýndist honum Guðmundur þá svo alvarlegur að hann þóttist ei mega sjá í augu honum; bað hann síðan Andrés víkja heim frá sér aftur og vitja ekki um sig fyrr en um miðaftan og segja ekki til sín hver sem eftir sér spyrði og hvað sem við lægi; „hefur mér nú þetta riðið mest á trúnaði þínum“. Andrés lofaði honum góðu um það. Síðan skildu þeir og fór Andrés heim.

Svo bar til litlu eftir miðjan dag að maður kom að Hólsbúð og var mjög flumúsa. Hann var þar úr næstu byggðarlögum og spurði mjög að Guðmundi. Andrés kvaðst ekki neitt til hans vita og hann væri þar ekki: „Hefur hann ef til vill látið bera sig til kirkju eins og honum er títt, eða hvert erindi áttu við hann?“ Hinn svarar: „Dóttir mín frumvaxta er kvalin heima af vondum anda eða draugssendingu. Fékk hún það mein í nótt og er sem vitfirringur; vildi ég leita hjálpar og ráða til Guðmundar því ég veit að hann mundi ekki synja mér liðveizlu þar sem líf og velferð dóttur minnar liggur við, og skora ég á þig í nafni allra heilagra að þú segir mér hið sanna því hann hlýtur að vita um hagi hennar.“ Andrés færðist undan sem lengst hann mátti með mörgum afsökunum, en það tjáði ekki svo þar kom um síðir að hann hét að forvitnast um hagi Guðmundar. Gekk hann síðan þangað er hann hafði skilið við hann og sá þá hvar Guðmundur var búinn að kveða dverginn út úr steininum og að kerrunni með smyrslabauk stóran í hendi. Dverginum varð svo hverft við er hann sá manninn að hann hvarf aftur sem elding inn í steininn og luktist steinninn í skyndi. Guðmundi brá mjög við og sagði að sér mundi ekki auðið verða að renna sköpum þessum: „Mun mér vera ætlað,“ sagði hann, „að bera vanmætti mitt til grafar, og verði vilji drottins; en engum mannlegum krafti er nú auðið að hafa dverginn framar út.“ Síðan fór Guðmundur heim og bjargaði nauðsyn þess er kominn var, og bar síðan mæðu sína með þolinmæði.

Svo hefur enn verið sagt frá að eitt sinn hafi maður komið á glugga yfir Guðmundi um nótt og kallað inn til hans: „Hjálpaðu mér, Guðmundur, andskotinn eltir mig.“ Guðmundur mælti: „Hvar er hann?“ Hinn svarar: „Fyrir sunnan bæinn og kominn hartnær að húsum.“ En þetta var draugsending. Guðmundur bað manninn fara af glugganum og kvað þar út um ramaukin ljóð til draugsins svo hann fór að lyktum þar niður sem hann var kominn, skammt frá húsveggnum. Voru þar settir marksteinar sem draugurinn fór niður og sér þá þar enn í dag.