Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Guðmundur skáld Bergþórsson

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Guðmundur skáld Bergþórsson

Guðmundur skáld Bergþórsson er einn af þeim skáldum sem almenningur setur í fremstu sæti meðal rímnaskáldanna. Mælt er það að hann væri sonur Hallgríms prests Péturssonar og því þykir engum öfgar þó hann væri skáld mikið, en það getur varla staðizt að svo hafi verið tímans vegna.

Víða hefir Guðmundur fram fært ævisögu sína eða kafla úr henni í rímum sínum, en þó hvergi greinilegar en í Bertrams rímum. Hefir hann jafnframt getið um kröm sína, en þó hvergi frá sagt greinilega hver orsök hennar sé. Allt um það sýnist þó sem hann hafi verið sömu meiningar um það sem almenn sögn nú er, og það má sjá á samtíða kvæðum að menn hafa þá haft þá sömu trú. Þar til sýnist mér síra Jón á Hjaltabakka benda til með kallsi í svari hans upp á Skautaljóð:

Manstu nokkuð, tjörgutýr,
til hennar móður þinnar?
Var henni dentur vafinn rýr
að völlum heyrnarinnar.

En sú er sögn til þess: Nær hann var á fjórða árinu hafi móðir hans deilt við annan kvenmann, en Guðmundur verið staddur á milli þeirra; úr því hafi hann ekkert vaxið öðrumegin nema hvað höfuðið hafi haft réttan og fullan vöxt.

Guðmundur er talinn kraftaskáld. Það er sögn að Friðrik konungur fjórði hafi heyrt sögur um Guðmund, um vansköpun hans og afbragðs gáfur; hafi því viljað fá hann til sín og hafa hann sem aðra konungsgersemi og náttúruafbrigði til sýnis, en Guðmundi væri þetta þvernauðugt; hafi hann fundizt bráðkvaddur í rúmi sínu og hafi hann kveðið sig dauðan 1705.

Ekki veit ég hvínær Skautaljóð hafa verið kveðin, en alkunnug voru þau orðin þegar hann kvað Bertrams rímur. Margir orktu á móti þeim, þar á meðal Þórður á Strjúgi Halldórsson[1] og það mjög ómannúðlega, einkum í síðara sinni. Yfir þessu varð Guðmundur þungur og segir í seinna svari sínu til ályktunar:

Þrútni hann nú, en þó má senda
þriðja „frakið“ mér að benda
saklausum við upphaf ört.
Hér um sinn eg læt við lenda
leirgleyparans svarið kennda.
Margt er sér til gamans gjört.

En er Þórður var farinn að kveða hið þriðja sinn bólgnuðu kverkar hans svo hann dó af kverkabólgu.

Einu sinni kom unglingspiltur til Guðmundar sem „var að fara til prestsins“. Hann var fátækra manna, ef ekki á sveit, og færði honum tóbakspund. Gat hann þess að hann hefði ákafa ást á prestsdótturinni sem líka átti að konfirmerast undireins og drengurinn og beiddi Guðmund að liðsinna sér svo hann næði jafnaðarást hennar. En er drengurinn fór fekk Guðmundur honum seðil og bað hann koma honum undir höfðalag prestsdóttur leynilega, en muna sig um að sita gagnvart prestsdóttur næst er þau væru spurð. Næst er þau voru spurð hafði hún aldrei augun af honum. Eftir það vakti hún svo ræðu við föður sinn hvað efnilegur drengurinn væri og vel að sér. Höfðu þessi hennar ummæli þau áhrif á prestinn að hann tók drenginn til sín og kom honum til manns, ef ekki til prestsskapar, og fekk drengurinn svo stúlkunnar í framtíðinni og varð mesti gæfumaður.

  1. Þórður Halldórsson bjó í Öndverðanesi og Haukatungu; hann orti hluta af Skautaljóðum. Þórður skáld á Strjúgi var Magnússon og var uppi á 16. öld.