Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hóllinn, dældin og flórhellan á Hrauni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hóllinn, dældin og flórhellan á Hrauni

Á Stórahrauni á Eyrarbakka er hóll einn í túninu fyrir norðan bæinn og fjósið, en fyrir austan hólinn er aftur dæld nokkur í túninu. Sigurður stúdent Sigurðsson sem nú býr á Hrauni komst svo að þeirri jörð að kona sú sem Ingunn heitir gaf honum hana með sér í próventugjöf og hafði hún lengi verið þar áður en Sigurður flutti þangað. Þegar hann var þangað kominn varaði Ingunn hann við að láta slá hólinn og dældina og sagði að einhver óhöpp mundu af því standa ef svo væri gjört. Sigurður fór að ráðum hennar í því og lagði bann fyrir hvorttveggja.

Leið svo og beið að hvorugt var slegið í nokkur ár unz vinnumaður sá kom til Sigurðar sem Eiríkur hét; hann þaut einn morgun í og sló bæði hólinn og dældina áður en húsbóndi hans vissi af fyrr en allt var búið svo ekki dugði um að tala. En sama daginn brá svo við að flaug undir sex ær hjá Sigurði og kenndu menn það því að hóllinn og dældin hefðu verið slegin.

Sumarið eftir lét Sigurður taka fjósið á Hrauni. Bás sá sem er innstur í fjósum og gagnvart dyrum er á Suðurlandi kallaður hlöðubás. Á þeim bás stóð þá stálmakýr og átti ekki eftir nema viku til talsins er fjósið var rifið. Hella stór var í flórnum rétt fyrir aftan hlöðubásinn; hana bannaði Ingunn gamla að hreyfa og sagði að mikið mundi við liggja ef sér væri ekki gegnt til þess; enda bannaði Sigurður mönnum sínum að gjöra það. En af því „sjaldan vinnst vel varaður glæpur“ þausnaðist Eiríkur, sem fyrr var nefndur, í helluna og reif hana upp. Þegar lofta fór undir hana var þar geimur mikill og gap undir öllu svo langt sem til náðist að kanna með járnkarlinum. Var svo önnur hella látin aftur yfir gatið. En svo fór eftir þetta að stálmakýrin sem stóð á hlöðubásnum bar ekki allt sumarið, en dróst upp svo það varð að skera hana um haustið, og sást þá að kálfurinn hafði visnað með henni. Sú kýrin sem stóð á næsta bás öðrumegin fyrir framan hlöðubásinn skúfslitnaði.

Þetta sama sumar þaut Eiríkur enn í að slá dældina, og flaug þá undir þrjár ær á Hrauni, og voru öll þessi óhöpp kennd því að brugðið var út af fyrirmælum Ingunnar því það er trú að einhver forn ummæli liggi á þessu þrennu á Hrauni, hólnum, dældinni og hellunni, og helzt í orði að hóllinn og dældin væri slægjuland álfa[1] En við engu þessu hefur Sigurður látið hreyfa síðan.

  1. Víða eru þúfur í túnum bæði á Suður-, Vestur- og Norðurlandi, sumstaðar ein, sumstaðar tvær og sumstaðar þrjár, sem aldrei má slá því sú er trú á þúfum þessum að það komi bóndanum aftur í koll, Hvergi veit ég að tiltekið sé hver þúfur þessar eigi nema á Vesturlandi, þar eru þær nefndar álfaþúfur. Sbr. básinn í Hólafjósi í Hjaltadal sem ekki mátti binda kú á.