Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Höfðabrekku-Jóka (1)

Úr Wikiheimild
Ótitlað

Svo er sagt að í fyrndinni hafi búið á Höfðabrekku kona sú er Jórunn hét. Er það flestra manna sögn að hún hafi verið ekkja er þessi frásaga gerðist, en þó mæla sumir móti því og færa það til að hún hafi eftir dauðann sótt fast eftir að komast í rúmið hjá manni sínum sem Vigfús hefur heitið. Hún var stórlynd mjög og skaphörð, en ekki fór að öðru leyti slæmt orð af henni. Hún átti uppkomna dóttur, efnilega konu. Maður sá var hjá Jórunni sem Þorsteinn er nefndur; segja sumir hann hafi verið fyrirvinna hjá Jórunni, en þar [að] auki er sagt hann væri fóstursonur hennar, vænn og efnilegur maður. Hann lagði hug á dóttir Jórunnar, en það líkaði henni illa því þeir sem segja hún hafi ekkja verið segja að Jórunn sjálf hafi viljað eiga hann, en Þorsteini hafi þótt hún of gömul, en þar að auki búinn að festa ást á dótturinni. Nú vildi svo til að Þorsteinn átti barn við fyrrnefndri dóttur Jórunnar; varð hún þá afar reið og sagði þau skyldu aldrei fá að eigast; og þó margir legði góð orð til með Þorsteini var það ekki til annars en að gjöra illt verra. Loksins varð það að sætt milli Jórunnar og Þorsteins að hann skyldi fara burt frá Höfðabrekku og skipta sér alls ekki af barnsmóður sinni framar. Með þessum skilmálum sættust þau heilum sáttum og leið nú svo árið að ekki bar til tíðinda.

Á Höfðabrekku var það siður eins og víða var í þá daga að flutt var málnytufé til sels og var dóttir Jórunnar jafnan selmatselja. Þar sem Þorsteinn gat nú ekki gleymt barnsmóður sinni sætti hann þessu tækifæri að koma leynilega til hennar í selið til að færa henni einhverja laglega gjöf, en stóð þar lítið eða ekki við, heldur fór til baka aftur. Nú var þetta strax flutt til Jórunnar og svo orðum aukið að Jórunni skildist svo að Þorsteinn væri þar svo að segja með annan fótinn. Varð hún þá svo reið að hún kvaðst skyldi hefna á Þorsteini dauð ef henni tækist það ekki lifandi; og þetta dró hana til dauða. Þá var Magnús prestur Pétursson á Hörgslandi á Síðu; Þorsteinn gat fundið hann og leitað hjá honum ráða og réði prestur honum til að fara samstundis út í Vestmannaeyjar og útvega honum fylgdarmenn alla leið og sagði honum að koma aldrei til lands fyrr en full tuttugu ár væru liðin.

Nú víkur sögunni til Jórunnar; hún dó og gekk aftur og er alls ekki getið hvört hún var nokkurn tíma grafin, en þar á móti sást hún ganga um sýslur á Höfðabrekku og oft var hún í búri að skammta, en lét jafnan mold saman við; að öðru leyti lagði hún ekki illt til neins manns þó hún gengi daglega um með skautið lafandi aftur á milli herðanna, sem auðkenndi hana frá öðru kvenfólki.

Oft þóttust menn sjá hana á gangi á ýmsum stöðum og eitthvört sinn skyldi hún hafa mætt Magnúsi presti á Hörgslandi á förnum vegi og studdist hún þá við einhvörn hestinn sem í ferðinni var. Skal þá prestur hafa sagt við hana: „Illa fórstu með þig, Jóka.“ En hún svaraði: „Minnstu ekki á það, Mangi; eftir dauðann er seint að iðrast.“ Og í sama bili var hún horfin, en hesturinn sem hún studdist við var bógbrotinn.

Eitthvört sinn vöktu stúlkur tvær um nótt í fjósi; höfðu þær ljós og voru uppi á fjóspallinum; sagði þá önnur þeirra: „Hvað ætli okkur yrði við ef að Höfðabrekku-Jóka kæmi nú til okkar?“ En í sama vetfangi rak Jóka höfuðið upp undan pallinum og lagði höndurnar upp á pallinn og sagði: „Hvað ætli ykkur yrði við?“ Stóð hún þar litla stund og hvarf síðan, en lagði ekki frekara til stúlknanna.

Eitthvört sinn sem oftar fór skip til Vestmannaeyja og þegar formaður ætlaði að kalla lag úr landi sagði einn hásetinn við hann: „Ætlar þú að flytja djöfulinn út í Eyjar?“ Formaður kvaðst ekki hafa ætlað sér það og spurði á móti hvað hásetinn meinti með þessu. En hásetinn sagði að Jóka væri komin á skip út. En er þeir töluðust þetta við fór Jóka af skipi, en enginn hafði í það sinn séð Jóku nema sá eini maður.

Þegar Þorsteinn var búinn að vera nítján ár í Eyjum eirði hann þar ekki lengur og fór því til lands um vortíma. Það var um þann tíma sem landmenn vóru sem tíðast að fara til Eyjanna, og meðal annara ætlaði fyrrnefndur Magnús prestur út í Eyjar. En undireins og Þorsteinn var stiginn á þurrt land var Jóka þar til staðar; greip hún Þorstein og tætti hann allan í sundur. En er hún hafði lokið því starfi kom Magnús prestur í sandinn. Segir þá Jóka við hann: „Seint er komið, en hart er riðið.“ Prestur svarar: „Satt er það, en þó skal þér nú að fullu vinna ef ég má ráða.“ Tók prestur þá að kveða við Jóku og er eitt af því þessi vísa:

„Heklugjá er heljarkrá,
henni gusar eldur frá;
stofuna þá ég stefni þér á,
stað skaltu' engan betri fá.“

Hvarf þá Jóka von bráðar og stóð það ekki á löngum tíma að [þau] áttust við, en við Jóku hefur ekki vart orðið síðan.