Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Höfðabrekku-Jóka (2)

Úr Wikiheimild

Jórunn hét kona. Hún bjó á Höfðabrekku í Mýrdal. Hún var ógurlega stórlynd. Það bar til að vinnumaður barnaði dóttur hennar og varð hún svo grimm af því að hún heittist og dó, gekk síðan aftur og sótti að manninum. Honum var ráðlagt að fara út í Vestmannaeyjar og vera þar um tuttugu ára tíma, þá yrði hún úrdauð. Hann fór og var burtu nítján ár, en þá undi hann ekki lengur og fór í land. Þegar hann lenti var Jóka í sandinum og tók hann og drap. Á meðan hafði hún alltaf verið á flakki og sézt oft um nætur ganga um bæinn á Höfðabrekku, fara með matseld og þvílíkt. Er sagt hún hafi slett dálítilli sleikju í hvurn ask. Hún hafði fald á höfði og hékk hann aftur á bak.

Svo er sagt að Magnús prestur á Hörgslandi, skólabróðir Eireks á Vogsósum, hafi mætt henni eina nótt eftir að hún drap manninn. Þá var hún ríðandi á gráum hesti og skautið kembdi aftur af höfðinu. Magnús sagði við hana: „Illa fórstu með þig, Jóka.“ Hún svaraði: „Minnstu ekki á það, Mangi prestur,“ „eftir dauðann er of seint að iðrast,“ bæta sumir við. Eftir það kom Magnús prestur henni fyrir í keri miklu sem er á Grænafjalli. Það er sagt það sé beltað hömrum efst og svo snarbrattar brekkur allt um kring ofan að vatnsgjá. Áður en Jóka steypti sér í kerið rak hún upp þrjú hljóð ógurlega mikil svo allt sem kvikt var flúði af Grænafjalli.

Katrín Káradóttir hét kona. Hún var á Hlíðarenda hjá Brynjúlfi Thorlacius. Seinna fekk hún brjóstmein og gat ekki unnið, flakkaði þá um allar sveitir og kom oft á alþing. Tóku höfðingjar henni vel því hún kunni frá mörgu að segja. Hún sagði frá því að hún var á grasafjalli eða berjamó ekki mjög langt frá Grænafjalli þegar Jóka fór í kerið, og heyrði hljóð hennar. Hafði Katrín alltaf sama viðkvæði þegar hún talaði um þetta, og sagði: „Það voru ljót hljóð,“ og er það uppi haft síðan.