Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Húsfrú Guðný

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Húsfrú Guðný

Þessi vitrunargáfa er mjög fáum mönnum gefin; veit ég öngan að nafngreina sem hana haft hafi í landi voru á næstu öld nema konu dómkirkjuprests síra Árna Helgasonar sem mér sagt hefur þrjár vitranir af þessari tegund:

Þá kona hans var barnfóstra í Skálholti hjá Hannesi biskupi bar so við eitt kvöld að nefnd kona gekk út í kirkjugarð í ljósaskiptum til gamans sér og fer að lesa letrið á líksteini biskups Finns sem þá var nýkominn utanlands frá og þótti því nýjungagripur. En sem hún hefur grúft litla stund yfir steininum heyrast henni þungar stunur og reisir sig upp og litast um í kringum sig hvört hún sjái nokkuð kvikt. En sem hún verður einkis vör fer hún aftur til iðju sinnar og heyrir nú miklum mun þyngri stunur en áður. Við þetta grípur hana ótti og blóðið hleypur því út í andlitið, hún flýtir sér sem fyrst frá steininum og upp á herbergjaloft hvar biskup Hannes var að skemmta fólki sínu. En sem frúin sér hana segir hún við hana að hún hafi hrædd orðið og spyr hvað til komi, en hún lætur sig ei merkja með það, og so dettur tal þetta niður og henni líða stunurnar úr minni. En næsta sumar eftir tekur Hannes biskup banasótt og þegar hún heyrði stunur hans í sóttinni vaknar það upp fyrir henni sem við hafði borið um veturinn, og þóttist hún þá endurkenna þær stunur sem hún hafði heyrt, og til að draga enn fleiri líkur hér að má þess og geta að honum var líkkista smíðuð í stúkunni þar hjá er steinninn [föður hans] lá fyrir framan.

Þá sama kona var gift og komin að Reynivöllum í Kjós er hún einn dag sem oftar í búri sínu á túnaslætti. Heyrist henni þá gengið um göngin og guðað. Hún þykist gjörla þekkja skóhljóð og róm mannsins, en af því hún vissi af tengdaföður sínum inn í bænum og öðru fólki í svefni vildi hún ei yfirgefa verk sitt fyrr en hún væri búin og hugsar að tengdafaðir sinn muni tala við gestinn. En nokkru síðar vaknar sú hugsun hjá henni: „Ef tengdafaðir minn sefur og fólkið allt, þykir gestinum þurrleg innisetan.“ – Hún fer því inn að skyggnast um hvað gestinum líði, finnur fólk allt í svefni, en öngan gest; hún hleypur út og svipast þar ogso að hönum, en sér hvörki hest né gest eður nein merki til þess að nokkur hafi komið. En að kvöldi sama dags kemur bóndi úr sókninni, að heiti Kort á Möðruvöllum, með bréf til manns hennar og segist hafa haft mikinn hug á að komast þangað um allan daginn því hann hafi verið beðinn fyrir að koma bréfi sem hann fær konunni fljótt á framfæri, en hafi teppzt við ófæra á.

Þá nefnd kona nokkru síðar var enn stödd í búri sínu í Breiðholti segir hún upp úr þurru við stúlku sem hjá henni var: „Mér er bezt að fara héðan því nú er hann prófessor Magnusen kominn.“ En þá hún kemur inn er þar enginn prófessor Magnusen; öngan komumann var heldur úti að sjá. En þá lítil stund var liðin kemur þar prófessor [Finnur] Magnusen og Árni Geirsson Vídalín með hönum. – Amen.