Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Handbókin

Úr Wikiheimild

Margir yngissveinar fóru til Eiríks prests og báðu hann kenna sér. Hann reyndi þá með ýmsu móti og kenndi þeim er honum sýndist. Meðal annara var einn piltur er falaði kennslu í galdri. Eiríkur mælti: „Vertu hjá mér til sunnudags og fylg mér þá til Krýsuvíkur; síðan skal ég segja þér af eða á.“

Þeir ríða af stað á sunnudaginn. En er þeir koma út á sand mælti Eiríkur: „Ég hef þá gleymt handbókinni; hún er undir kodda mínum; farðu og sæktu hana, en ljúktu henni ekki upp.“ Pilturinn fer og sækir bókina og ríður út á sand. Nú langar hann til að líta í bókina og það gjörir hann. Þá koma að honum ótal púkar og spyrja: „Hvað á að gjöra, hvað á að gjöra?“ Hann svarar skjótt: „Fléttið reipi úr sandinum!“ Þeir setjast við, en hann heldur áfram og nær presti út í hrauni. Hann tók við bókinni og mælti: „Þú hefur lokið henni upp.“ Pilturinn neitar. Þeir fara nú sem ætlað var; en á heimleiðinni sá prestur hvar púkar sátu á sandinum. Þá mælti hann: „Vissi ég það að þú laukst upp bókinni, heillin góð, þó þú neittir; en snjallasta ráð tókstu og væri vert að kenna þér nokkuð.“ Er svo sagt að hann hafi kennt honum.