Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Helgi í Helgakoti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Helgi í Helgakoti

Guðmundur Snorrason (prests á Húsafelli[1]) bjó í Vörum í Inn-Garðinum og hét Ástríður kona hans. Snorri Jónsson var þar þá frumvaxta hjá Guðmundi föðurbróður sínum; fór hann til hans ungur frá Ásgrími afa sínum á Stóru-Drageyri.

Einu sinni fyri jólin sendi Ástríður Snorra inn að Helgastaðakoti með fjögra potta kút til að fá í hann fyri jólin því gamli Helgi sem þar bjó var kunningi hennar. Snorri fór nú til hans og hitti karl og sagði honum orðsending Ástríðar. Helgi sagði það væri nú ekki hægt – „en fáðu mér pokann, það má setja hann þarna við stafinn“. Hann setti pokann við rúmstólpann, en Snorri stóð á gólfinu og var gamli Helgi að hjala við hann um hitt og þetta og sat á rúminu sínu. Að stundu liðinni gengur hann að stafnum og fær Snorra pokann, en bað hann fyri að koma nú ekki í Keflavík er hann færi heim. Snorri tók við og fann að sekkurinn hafði þyngzt.

En er hann kom út hugsar hann með sér hvað það mundi saka þó hann kæmi út í Keflavík, bregður á sitt ráð og flýtir sín sem hann kunni, því hann var þá á léttasta skeiði, og hleypur út í Keflavík um kvöldið og kemur af sér kútnum og atlar að fá sér að vera í Fjósi (svo hét hús það er vinnufólk kaupmannsins svaf í). En er hann kemur þar í dyrnar mætir hann Helga þar í dyrunum. „Þú ert þá ekki kominn lengra,“ segir Helgi. Snorri sagði það ekki vera, en hvumsaði við er hann mætti honum þarna því vegurinn var örskammur og sagðist hann ekki hafa skilið hvernig karl gat orðið svo fljótur. Þar var hann um nóttina. En er hann kom að Vörum þá var kúturinn fullur.

Helgi í Helgakoti (ég atla það sama sem Höskuldarkot) hafði alltaf þurrkaðan himbrima í hjallgættinni og hvert sem gárungarnir báru hann var hann óðara kominn í hjallgættina og eins þó þeir reru með hann út á sjó og slepptu honum þar; hentu þeir gaman að þessu.

Hann hélt of mjög fyri kerlingu sinni og svelti hana. En er hann brá sér að heiman fór hún í hjallinn að ná sér nokkru, en setti Guðrúnu Gísladóttir, sem hjá þeim var, á vaðberg að hafa gát á nær hann kæmi. Oftast nær sáu þær hann koma gangandi; þutu þær þá í bæinn. Kom hann þó oft og einatt ekki; eins þegar hann var róinn kom Helgi, að þeim sýndist, og varð þá ekki meira úr jafnvel þó hann væri út á sjó.

Oftast nær lét hann illa í svefni jafnvel þó hann læsi „Englabrynju“ og „Fjandafælu“ á hverju kvöldi.

Einu sinni „fór upp á“ Guðrúnu í svefni og þótti henni það reka klóna í háls henni; þar var blár blettur um morguninn og skar karlinn hann burtu.

Guðrún Björnsdóttir – móðir Guðrúnar – fór suður 1757, uppflosnuð í eldinum 1755 (Kötlueldinum). Hún var gamansöm og glettufull. Það er til merkis um það að einu sinni fekk hún honum falleg sokkabönd og bað hann lengstra orða að láta þau aldrei kólna, hvað hann varaðist sem heitan eldinn. Af þessu hélt hann að hún mundi kunnáttusöm. Einu sinni kemur hann með kver fram í dyr og sýnir Guðrúnu Gísladóttir, flettir því fyri henni og spyr hvort hún hafi ekki séð annað eins hjá móður sinni – eins og stafina sem á því voru – en hún neitar. Karl trúði ekki. Af þessu má sjá hvað auðtrúa hann var.

  1. Séra Snorri á Húsafelli átti engan son með þessu nafni, enda stenzt það ekki heldur tímans vegna.